Erlent

Risa­vaxinn svart­björn eftir­lýstur af lög­reglu fyrir tugi inn­brota

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Hank the Tank á góðum degi. Hann hefur örugglega fengið eitthvað gott að borða fyrir myndatökuna.
Hank the Tank á góðum degi. Hann hefur örugglega fengið eitthvað gott að borða fyrir myndatökuna. BEAR League

Lögreglan í Kaliforníu í Bandaríkjunum hefur lýst eftir risavaxna svartbirninum „Hank the Tank“ fyrir tugi innbrota við Tahoe vatn síðasta sumar. 

Bjarnarbófinn vegur 230 kg, mun meira en meðalbjörninn, og virðist hafa sleppt því að leggjast í hýði þar sem hann kemst stöðugt í matvæli. Yfirvöld segja að mögulega þurfi að svæfa björninn vegna þess að honum sé farið að líða „of vel“ í kring um mannfólk.

Dýraverndunarhópar hafa þó kallað eftir því að Hank verði þess í stað fluttur á dýraverndunarsvæði. Hank fékk viðurnefni sitt „the Tank“, eða skriðdrekinn, fyrir það að valsa inn á læst heimili, brjótast í gegn um dyrnar, til þess að ná sér í mat.  

„Hann lærði að nota stærð sína og styrk til þess að brjótast inn á heimili,“ segir Peter Tira, talsmaður Náttúruverndarstofnunar Kaliforníu. 

„Hann brýst inn um bílskúrshurðir og útidyrahurðir. Hann brýst inn um glugga.“

Hank, sem er einnig kallaður Hinrik konungur af miðlum vestanhafs, er sagður auðþekkjanlegur vegna stærðar sinnar, dökka feldsins og ljósa trýnisins. 

Náttúruverndarhópurinn The Bear League telur að Hank hafi orðið svona stór vegna ástar sinnar á fæði manna. Birnir af þessari tegund vega yfirleitt á bilinu 45 til 140 kg. 

Á undanförnum sex mánuðum hefur Hank bortist inn á fjörutíu heimili og sums staðar valdið miklum skemmdum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×