Skoðun

Þjónusta við fjöl­skyldur í Garða­bæ er mér hjartans mál

Stella Stefánsdóttir skrifar

Þjónusta við fjölskyldur og velsæld barna og ungmenna er mér hjartans mál. Ég á fjórar dætur á aldrinum 15 til 23 ára sem hafa gengið í leik- og grunnskóla í Garðabær og stundað íþróttir- og frístundir í bænum. Ég þekki og skil þær áskoranir sem foreldrar barna og ungmenna standa frammi fyrir í amstri dagsins. Minnstu frávik í þjónustu geta flækt líf fólks.

Áreiðanleg þjónusta við fjölskyldur

Þjónusta við fjölskyldur á að vera í forgangi í Garðabæ. Fólk reiðir sig á heilstæða góða þjónustu leik- og grunnskóla, frístundaheimila og frístundabíls. Samþætting skóla og frístunda skiptir máli. Áreiðanleiki þjónustu er lykilatriði og hún þarf að vera aðgengileg, einföld og skilvirk. Það þarf að leggja kapp á að 1 árs börn komist inn á leikskóla nálægt heimili og að systkini hafi forgang í sama leikskóla. Tryggja þarf framsýni og fyrirsjáanleika við uppbyggingu og aðlögun grunnþjónustu í nýjum og vaxandi hverfum.

Framsæknir skólar og leikskólar

Ég tel mikilvægt að bjóða framsækna leik- og grunnskóla í Garðabæ sem laða að hæft starfsfólk. Það þarf að leita leiða til að efla starfsumhverfi skóla og leikskóla. Vellíðan nemenda og starfsfólks skiptir höfuðmáli. Skólakerfið og stuðningur á að efla nemendur til að hafa sjálfstraust í sínum verkefnum og til að takast á við framtíðina með áherslu á nýsköpun.

Fjölbreytt íþrótta- og frístundastarf

Garðabær á áfram að leggja metnað í að byggja upp góða íþróttaaðstöðu. Styrkja þarf áframhaldandi samstarf Garðabæjar við frjáls félagasamtök um skipulagt íþrótta- og frístundastarf. Það þarf að standa vörð um jafnrétti kynja og fylgja því markvisst eftir þegar stuðningur er veittur.

Tryggja þarf framboð að fjölbreyttu íþrótta- og frístundastarfi. Brottfall er algengt hjá unglingum og það finna sig ekki öll börn í hefðbundnu íþrótta- og frístundastarfi. Leita þarf leiða til að grípa þessi ungmenni og styðja þau til virkni og félagslegrar samveru. Einnig þarf að leggja kapp á að að yngri börn geti stundað algengar íþróttagreinar og vinsælt frístundastarf að einhverju marki nálægt heimili sínu og að umfang íþróttamannvirkja vaxi í takt við fólksfjölgun.

Gæðastundir í nærumhverfinu - Ég læt verkin tala

Það er fátt yndislegra en gæðastundir með fjölskyldunni. Ég tel mikilvægt að fjölskyldur í Garðabæ getið upplifað menningu, útivist og bæjarbrag í nærumhverfinu. Það þarf að efla Garðatorg, hverfiskjarna, opin svæði og tækifæri til gæðastunda fjölskyldna innan Garðabæjar. Ég tel að við eigum að fá börn og ungmenni að skipulagninu á nærumhverfinu.

Sem formaður stjórnar Hönnunarsafnsins á þessu kjörtímabili hef ég sýnt í verki að mér í annt um börn og ungmenni og er reiðubúin að láta til mín taka með hagsmuni barna að leiðarljósi. Það hefur verið lögð rík áhersla á að gera safnið áhugavert fyrir börn. Safnfræðsla hefur verið stórefld og Hönnunarskóli Íslands var settur á laggirnar fyrir ungmenni. Ég hef talað fyrir því að hvatningasjóður ungra listamanna verði útvikkaður þannig að ungir hönnuðir séu jafnframt gjaldgengir við úthlutun. Þetta var samþykkt í síðustu viku.

Höfundur er varabæjarfulltrúi og gefur kost á sér í 3.-4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×