Innherji

Bankarnir ekki lánað minna til íbúðakaupa frá upphafi faraldursins

Hörður Ægisson skrifar
Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um rúmlega 20 prósent á síðustu tólf mánuðum.
Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um rúmlega 20 prósent á síðustu tólf mánuðum. Foto: Vilhelm Gunnarsson

Hækkandi vextir Seðlabankans, ásamt sögulega litlu framboði fasteigna á höfuðborgarsvæðinu, er farið að hægja verulega á útlánavexti bankanna vegna íbúðakaupa heimilanna. Ný lán þeirra með veði í íbúð námu þannig 13,3 milljörðum króna í janúar á þessu ári og hafa ekki aukist minna í einum mánuði frá því í apríl 2020.

Þetta má lesa út úr nýjum tölum Seðlabanka Íslands um bankakerfið, sem birtust í morgun, en til samanburðar jukust ný íbúðalán til heimilanna að frádregnum uppgreiðslum um meira en 300 milljarða króna á öllu árinu 2021.

Lánavöxturinn á fyrsta mánuði ársins var sem fyrr alfarið drifin áfram af nýjum óverðtryggðum lánum sem námu um 12,8 milljörðum króna. Hlutfallslega kusu talsvert fleiri heimili að taka óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum í janúar borið saman við mánuðina þar á undan, eða samtals yfir 35 prósent, enda þótt meirihlutinn hafi eftir sem áður valið að festa vextina á slíku lánaformi.

Þá sýna tölur Seðlabankans að verðtryggð íbúðalán bankanna voru lítillega meiri en sem nam uppgreiðslum þeirra í janúarmánuði í fyrsta sinn frá því í mars árið 2020. Ný verðtryggð lán bankanna með veði í íbúð jukust þannig um rúmlega 400 milljónir en til samanburðar greiddu heimilin upp slík lán fyrir samanlagt um 55 milljarða á árinu 2021.

Bankarnir lánuðu um 11,5 milljarða króna til atvinnufyrirtækja í síðasta mánuði sem er mesta aukningin frá því í júlí í fyrra. Ný útlán bankanna til atvinnulífsins voru samtals 48 milljarðar á öllu síðasta ári.

Seðlabanki Íslands hefur brugðist við hækkandi verðbólgu og versnandi verðbólguhorfum með því að hækka vexti úr 0,75 prósentum í 2,75 prósent frá því um vorið 2021. Bankinn hækkaði vexti síðast fyrir tveimur vikum – um samtals 75 punkta – en verðbólgan undanfarið hefur einkum verið drifin áfram af hækkandi húsnæðisverði sem er upp um rúmlega 20 prósent á síðustu tólf mánuðum. Á sama tíma hefur einnig dregið verulega úr veltu og fjölda kaupsamninga á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu.

Vaxtalækkanir Seðlabankans til að bregðast við efnahagsáhrifum farsóttarinnar í upphafi árs 2020 – vextir lækkuðu þá á skömmum tíma úr 3 prósentum í 0,75 prósent – örvuðu mjög íbúðamarkaðinn og heimilin flykktust til bankanna, sem buðu þá hagstæðustu vaxtakjörin á markaði, til að sækja sér lán til fasteignakaupa eða endurfjármögnunar. Á sama tíma greiddu sjóðsfélagar hins vegar upp íbúðalán sín hjá lífeyrissjóðunum en nú eru vísbendingar um að heimilin séu á ný farin að leita til sjóðanna vegna lána til íbúðakaupa.

Heimilin hafa í vaxandi mælið sagt skilið við að taka lán til fasteignakaupa á breytilegum vöxtum samtímis aukinni verðbólgu og væntingum um enn frekari vaxtahækkanir Seðlabankans. Frá því um mitt síðasta ár hefur þannig verið lítil aukning í veitingu nýrra íbúðalána bankanna á breytilegum vöxtum á meðan slík lán á föstum vöxtum hafa vaxið um meira en 100 milljarða króna yfir sama tímabil.

Töluverð eftirspurn var eftir lánum með breytilegum vöxtum á fyrri hluta síðasta árs – nettó ný útlán voru um 25 milljarðar króna í bæði apríl og maí 2021 – en síðan þá hefur veiting slíkra lána farið ört minnkandi. Ummæli sem Ásgeir Jónssonar seðlabankastjóri lét falla í hlaðvarpsþætti sumarið 2021 vöktu mikla athygli en þar ráðlagði hann fólki að festa vexti.

Auk þess að hækka vexti á undanförnum mánuðum hefur Seðlabankinn gripið til aðgerða á vettvangi fjármálastöðugleika- og fjármálaeftirlitsnefndar – hlutfall hámarks veðsetningar fasteignalána var lækkað í 80 prósent og eins settar reglur um 35 prósenta hámark á greiðslubyrði – í því skyni að reyna kæla fasteignamarkaðinn.

Í Peningamálum Seðlabankans sem komu út í nóvember í fyra var bent á að skuldir heimila sem hlutfall af vergri landsframleiðslu væru meiri nú en þegar faraldurinn hófst í ársbyrjun 2020. Skuldsetningin væri þó enn hófleg. Veðsetningarhlutfall nýrra íbúðalána hefði hækkað að meðaltali, meðal annars vegna hækkandi íbúðaverðs, en taka þyrfti tillit til þess að hlutfall fyrstu kaupenda hefur farið hækkandi, að sögn Seðlabankans.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði í viðtali Innherja fyrr í þessum mánuði að staða heimilanna hefði aldrei verið betri „Það eru þess vegna algjör öfugmæli að tala um eitthvað neyðarástand sem þurfi bregðast við,“ sagði Ásgeir eftir ákvörðun Seðlabankans um að hækka vexti úr 2 prósentum upp í 2,75 prósent.

„Þrátt fyrir allt hafa laun hækkað meira en verðlag á undanförnum 12 mánuðum og síðan á eftir að greiða út hinn svonefnda hagvaxtarauka á árinu. Allir sem keyptu fasteignir eru með neikvæða raunvexti á lánunum sínum og eins hafa þeir hafa fengið verulega hækkun fasteignaverðs ofan á allt annað sem hefur bætt eiginfjárstöðu margra. Ég myndi frekar hafa áhyggjur af því fólki sem hefur ekki komist inn á fasteignamarkaðinn,“ sagði seðlabankastjóri.

Á undanförnum mánuðum hefur nokkuð dregið úr ásókn heimilanna í óverðtryggð lán hjá bönkunum, eins og Innherji hefur áður fjallað um, samhliða því að vaxtakjör þeirra hafa farið versnandi undanfarna mánuði eftir stýrivaxtahækkanir Seðlabankans. Allir viðskiptabankarnir þrír hækkuðu óverðtryggða breytilega íbúðalánavexti sína um 50 punkta eftir síðustu vaxtahækkun Seðlabankans og eru þeir nú um og yfir 4,7 prósent hjá bönkunum.

Viðskiptabankarnir bjóða því ekki lengur bestu kjörin á óverðtryggðum lánum á breytilegum vöxtum, lánaform sem heimilin sóttu nánast alfarið í á árunum 2020 og 2021, en sumir af stærstu lífeyrissjóðum landsins, eins og meðal annars Gildi og Lífeyrissjóður verslunarmanna, eru í dag með lægri vexti á slíkum sjóðsfélagalánum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×