Skoðun

Ein­földun verk­ferla innan borgar­kerfisins

Helgi Áss Grétarsson skrifar

...sagði Dagur B. Eggertsson, þáverandi formaður atvinnumálahóps Reykjavíkurborgar, í inngangsorðum „Atvinnustefna Reykjavíkur – skapandi borg“ sem kom út fyrir áratug. Hvað hefur áunnist í þeim efnum síðan þá? Fátt, að ég hygg. Dagur hefur samt verið borgarstjóri í átta ár samfleytt.

Er Viðreisn að vakna?

Þórdís Sigurðardóttir, frambjóðandi í 1. sæti í prófkjöri Viðreisnar í Reykjavík, sagði í grein á visir.is í morgun, að brýnt væri að efla traust á milli atvinnulífs og borgar. Ein helsta áskorunin í þeim efnum væri „tortryggni og vantraust atvinnulífsins gagnvart borginni auk þess sem kvartað er undan flókinni og ógagnsærri þjónustu borgarinnar við atvinnulífið“. Tilvitnaðar fullyrðingar Þórdísar eru ekki hennar, heldar byggja þær á drögum að „Atvinnu- og nýsköpunarstefnu borgarinnar 2022–2030“. Samt er það svo að undanfarin fjögur ár hefur flokkur Þórdísar, Viðreisn, stutt vinstri meirihlutann í Reykjavík. Bragð er að þá barnið finnur.

Hvert er förinni heitið?

Fyrir liggur að starfsmönnum innan A-hluta Reykjavíkurborgar hefur fjölgað mikið á þessu kjörtímabili, talan 20% hefur verið nefnd í því sambandi. Fleiri vísbendingar eru um að skrifræðið í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar sé í vexti. Frá þeirri för er hægt að snúa. Það verður ekki gert nema með einföldun kerfisins, fækkun starfsmanna og að kostnaður í allri yfirbyggingu sé skorinn niður. Öll verkefni sem varða ekki lögbundin skylduverkefni Reykjavíkurborgar eiga að vera tekin til rækilegrar endurskoðunar. Hvað gerir t.d. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkurborgar sem aðrir geta ekki sinnt?

Ábyrg fjármálastjórn og lægri skattar

Að mínu mati þarf að taka verulega til í rekstri Reykjavíkurborgar. Með ábyrgri fjármálastjórn og skilvirkri stjórnsýslu skapast forsendur til að lækka álögur á einstaklinga og fyrirtæki í borginni. Skilaboðin í borgarstjórnarkosningunum í vor þurfa að vera skýr enda er breytinga þörf við stjórn Reykjavíkurborgar.

Höfundur óskar eftir stuðningi í 5. sæti í komandi prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×