Erlent

Segir að al­þjóða­sam­fé­lagið muni draga Rússa til á­byrgðar

Atli Ísleifsson skrifar
Joe Biden á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í morgun.
Joe Biden á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í morgun. EPA

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur brugðist við því sem hann kallar „tilefnislausa og óréttlætanlega“ árás rússneskra hersveita á Úkraínu. Hann segir heiminn allan biðja fyrir Úkraínumönnum og standi með þeim.

Biden segir að þetta stríð, sem Vladimír Pútín Rússlandsforseti hafi ráðist í að yfirlögðu ráði, muni hafa skelfilegt mannfall og þjáningar í för með sér, að því er segir í frétt BBC.

Rússneskar hersveitir skutu flugskeytum á nokkrar borgir í Úkraínu í morgun og þá réðst fjölmennt rússneskt herlið inn í sunnanverða Úkraínu í morgun. Utanríkisráðherra Úkraínu lýsti því svo yfir að allsherjarinnrás Rússa inn í Úkraínu væri hafin.

Biden segir að Rússar beri einir ábyrgð á þeim dauðsföllum og þeirri eyðileggingu sem árásin hafi í för með sér og að Bandaríkin og bandamenn þeirra muni bregðast við í sameiningu og á ótvíræðan hátt. Hann segir að heimurinn muni draga Rússa til ábyrgðar.

Biden mun ávarpa þjóð sína síðar í dag þar sem hann hyggst tíunda þær afleiðingar sem árásin hafi í för með sér fyrir Rússa. Hann segist fylgjast með framvindunni úr Hvíta húsinu og muni funda með leiðtogum G7-ríkjanna áður en hann greinir frá frekari viðbrögðum Bandaríkjamanna.


Tengdar fréttir

Sprengjum rignir yfir Kænugarð

Rússneskar hersveitir skutu flugskeytum á nokkrar borgir í Úkraínu í morgun. Stór hópur hermanna réðist þá inn í sunnanvert landið í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×