Innlent

Bingóspilarar einróma um lokun Vinabæjar: „Ömurlegt!“

Tryggvi Páll Tryggvason og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Tímamót í Vinabæ
Tímamót í Vinabæ Vísir/Arnar

Hinsta bingóið í Vinabæ stendur nú yfir. Eftir bingóið í kvöld verður dyrum bingósalsins vinsæla lokað fyrir fullt og allt. Bingóspilarar eru ekki kátir með breytingarnar.

Óþekktur aðili hefur fest kaup á húsnæðinu í Skipholti sem hýsir bingóið í Vinabæ. Þar hefur bingó verið spilað í 32 ár, frá árinu 1990.

Kristín Ólafsdóttir, fréttamaður okkar, leit við í Vinabæ í kvöld þar sem hún ræddi við bingóspilara, sem eru á sama báti þegar kemur að skoðunum á því að Vinabær sé að loka.

„Mér finnst þetta hræðilegt bara. Eitt orð yfir það,“ sagði Hafdís Sigurðardóttir, sem staðið hefur vaktina í Vinabæ lengi við það að selja bingóspjöld.

Fólkið, bingóspilararnir og samstarfsmennirnir eru það sem Hafdís mun sakna mest við Vinabæ. Hún segist ekki vita hvað taki við nú.

„Maður veit ekki. Ég er náttúrulega í annarri vinnu en við erum allar að missa vinnuna okkar.“

Þetta er ekki bara erfitt fyrir spilarana?

„Nei, þetta er líka erfitt fyrir okkur. Að missa þetta, þetta er eins og félagsmiðstöð.“

Bingóspilararnir sem fréttastofa ræddi við í kvöld eru ekki kátir með að Vinabær sé að loka.

Söguleg stund í Vinabæ, síðasta bingóið.Vísir/Arnar

„Þetta er ömurlegt. Ömurlegt að þetta skuli vera að hætta. Mér finnst að það eigi ekki að vera leyfi fyrir því,“ sagði Guðný Pálína Adolfsdóttir.

„Gulli hlýtur að opna aftur, ég trúi ekki öðru,“ sagði hún og vísaði þar til Guðlaugar Sigmundssonar, framkvæmdastjóra bingósins.

Sigþór Elíasson hefur spilað bingó í Vinabæ nánast frá opnun. Hann er ekki hrifinn af því að Vinabær sé að loka.

„Mér líður illa með það. Þetta er alveg hörmung.“

Og undir þetta tók sú þriðja.

„Mér finnst þetta ömurlegt, alveg í einu orði sagt. Þetta er eina sem maður orðið gerir.“

Rætt var við Guðlaug bingóstjóra í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×