Fury greindi frá því á blaðamannafundi í gær að bardaginn gegn Whyte yrði hans síðasti á ferlinum. Þeir mætast á Wembley 23. apríl næstkomandi.
„Þetta verður síðasti bardaginn minn. Ég hætti eftir hann. Ég á 150 milljónir [Bandaríkjadala] inni á banka, er ungur og hraustur og ætla að kaupa risa stóra skútu erlendis,“ sagði Fury.
White mætti ekki á blaðamannafundinn í gær en hann er ósáttur með hvernig tekjurnar af bardaganum skiptast. Fury á að fá áttatíu prósent af þeim en Whyte aðeins tuttugu prósent.
„Hann er búinn að kasta inn hvíta handklæðinu að mínu mati. Hann hefur gefið mér svo mikið sjálfstraust að það er ótrúlegt,“ sagði Fury um þá ákvörðun Whytes að sniðganga blaðamannafundinn. „Hann er skíthræddur og ég álasa honum ekki fyrir að sleppa því að mæta.“
Fury, sem er 33 ára, er ósigraður á ferlinum, hefur unnið 31 af 32 bardögum sínum og er tvöfaldur heimsmeistari.