„Staðan er mjög óljós og á hverjum degi bætast við nýjar hindranir. Nú er ekki lengur möguleiki á að senda búnaðinn út og útilokun rússneskra banka frá Swift greiðslukerfinu skapar mikið óöryggi um greiðslur,“ segir Bjarni.
Vesturlönd hafa náð saman um að útiloka tiltekna rússneska banka frá alþjóðlega greiðslukerfinu SWIFT, sem tengir 11 þúsund banka frá fleiri en 200 löndum, og auk þess hafa tvö stærstu skipafélög heims, MSC og Maersk, hætt gámaflutningum til Rússlands.
Þetta er engin óskastaða, það eina sem við getum gert er að bíða átekta og setja kraft í aðra markaði
„Við erum með mikið af verkefnum í Rússlandi og búin að smíða mikið af búnaði sem bíður eftir að vera fluttur út. Þetta er engin óskastaða, það eina sem við getum gert er að bíða átekta og setja kraft í aðra markaði,“ segir Bjarni.
Á síðustu árum hefur átt sér stað gríðarleg uppbygging á rússneska fiskveiðiflotanum eftir að stjórnvöld þar í landi ákváðu að veita aukinn kvóta til útgerða sem smíða ný skip í Rússlandi.
Þessi uppbygging hefur komið sér vel fyrir íslensk tæknifyrirtæki sem sérhæfa sig í sjávarútvegi.
Árið 2019 var greint frá því að fimm fyrirtæki; Naust Marine, Skaginn 3X, Kælismiðjan Frost, Nautic og Brimrún, hefðu gert samninga fyrir alls 15 milljarða króna í gegnum markaðsfyrirtækið Knarr sem er í eigu þeirra allra. Fleiri fyrirtæki, til dæmis Valka, hafa einnig náð verðmætum samningum í Rússlandi.
Bjarni segir að fyrirtækin hafi bætt við sig töluvert af verkefnum síðan þá. „Rússarnir líta upp til íslenskra tæknifyrirtækja. Þeir telja okkur framarlega í sjávarútvegi, sem við sannarlega erum.“
Áður en Rússland lagði innflutningsbann á matvæli, meðal annars frá Íslandi vegna stuðnings við refsiaðgerðir ESB og Bandaríkjanna eftir innlimun Rússa á Krímskaga árið 2014, þá var það einn mikilvægasti markaðurinn fyrir íslenskar sjávarafurðir. Síðan þá hefur sala á sjávarútvegstækni og notuðum skipum hefur verið uppstaðan í útflutningi til Rússlands.