Það fór sjálfsagt fram hjá fáum að síðasta bingóið fór fram í Vinabæ á mánudagskvöldið. Fastagestir lýstu yfir mikilli sorg á þessum tímamótum en framkvæmdastjóri Vinabæjar segir ástæðuna einfalda. Alltof fáir hafi mætt á kvöldin og reksturinn verið neikvæður.
Rætt var við bingógesti í kvöldfréttum á mánudagskvöld.
Fyrstu bingókvöldin voru haldin í Glæsibæ og síðar Tónabæ. Félagið þurfti svo að finna nýjan stað þegar félag eldri borgara hugðist kaupa Tónabæ af Reykjavíkurborg. Því fór svo að samtökin keyptu Skipholt 33 á 25 milljónir króna en kostnaður við endurbætur nam 35 milljónum króna til viðbótar. Fram að því var húsið þekkt sem Tónabíó þar sem finna mátti bíósal og húsnæði Tónlistarskólans í Reykjavík sem reisti húsið árið 1964.
Fjáröflun sem snerist upp í andhverfu sína
Guðlaugur Friðgeir segir að fjáröflun í formi bingókvölda fyrir bindindissamtökin hafi snúist upp í andhverfu sína. Spilurum hafi fækkað stöðugt og tap orðið á rekstrinum. Kaflaskil hafi orðið í kringum hrunið 2008.
„Við vorum með þrjú bingókvöld fram að hruni. Þá urðum við að fækka niður í tvö kvöld. Fólk hvorki kom né hafði peninga til að spila fyrir,“ segir Guðlagur. Síðan hafi bingóið í raun ekki náð sér á strik.
Við bætist heilmikill rekstrarkostnaður á húsnæðinu og annar tilkostnaður hafi hækkað feikilega mikið. Covid-faraldurinn hafi ekki hjálpað til, Vinabær ekki fengið neina styrki og verið lokað fyrir bingó í fleiri mánuði.
Borð og stólar til sölu
Húsnæðið var auglýst á sölu fyrir 290 milljónir í fyrra. Ekki seldist fasteignin og var hún svo auglýst á tilboði. Nýlega var tilboð samþykkt í húsnæðið. Guðlaugur Friðgeir vill ekki gefa upp kaupverðið en hann sé ekki sáttur við kaupverðið. Það verði þó ekki gefið upp.
Húsið verði afhent þann 1. apríl og nú sé bara pökkun fram undan.
„Ef þú veist um einhvern sem vill kaupa stóla og borð - þá verður það til sölu,“ segir Guðlaugur. Hann staldrar við og vill beina orðum sínum til bingóspilara. Margir hverjir voru því sem næst niðurbrotnir á mánudagskvöldið.
„Innilegar þakkir fyrir það að hafa komið og sýnt þessu áhuga á meðan þetta var. Það eru fjölmargir sem hafa gaman af því að spila, ekki bara að spila bingó heldur var þetta að stórum hluta félagsmiðstöð,“ segir Guðlaugur og er hugsi.
Margt fólk fari ekki neitt
„Það gera ekki allir sér grein fyrir hvernig ástandið er í okkar litla þjóðfélagi. Það er svo stór hópur af fólki sem fer ekki eitt né neitt,“ segir Guðlaugur. Það sé mikið til eldra fólk.
„Þegar það kom í bingó sagði það stundum: „Ég fer aldrei neitt - ég fer í bingó og það er það eina sem ég læt eftir mér“,“ segir Guðlaugur. Hann er hugsi yfir því hvernig fjölskyldur og afkomendur fólksins standi sig.
„Þó að maður viti að þetta blessaða fólk á fjölskyldur og afkomendur þá er það samt ekki svoleiðis að fólk geti fengið fólkið sitt til að keyra og sækja í bingó. Afkomendur nenna ekki að sinna því,“ segir Guðlaugur.
Guðlaugur segist hafa kynnst þessu þegar hann hafi farið að ræða við fólk í bingósalnum.
Fleiri þurfi að mæta
„Maður áttar sig á því hérna að það er svo mikið af einstæðingum í þjóðfélaginu, sem eru bara einir, og fara aldrei út á meðal fólks - nema að koma hingað í bingóið,“ segir Guðlaugur.
Fólk kom hingað, fékk sér kaffi, spjallaði, settist hjá einhverjum og kynntist einhverjum. Hann hafi heyrt vangaveltur fólks um hvað það eigi nú að gera. Fólk hafi til að mynda áhyggjur af bingólausum páskum.
En væri ekki hægt að halda bingóinu gangandi á nýjum stað?
„Til þess að það sé hægt þarf fólk að sækja bingóið þegar það er í gangi,“ segir Guðlaugur. Mætingin hafi einfaldlega ekki verið nógu góð síðustu ár. Þrátt fyrir það hafi verið miklu hærra vinningshlutfall í bingóinu í Vinabæ en í bingó erlendis. Mun fleiri blöð þurfi að selja upp í vinninga í Vinabæ en annars staðar.
„Við fórum einu sinni í að lækka vinningana og hækka verðið á blöðunum. Það hjálpaði okkur á þeim tíma. En síðan hefur allur kostnaður aukist og það er ekki endalaust hægt að hækka verð á blöðum og lækka vinningana.“