Enski boltinn

Ancelotti nú orðaður við stjórastöðuna hjá Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlo Ancelotti er á góðri leið með að gera Real Madrid liðið að spænskum meisturum.
Carlo Ancelotti er á góðri leið með að gera Real Madrid liðið að spænskum meisturum. EPA-EFE/DUMITRU DORU

Það er enn miklar vangaveltur í gangi um hver fái það krefjandi starf að taka við sem næsti framtíðarknattspyrnustjóri Manchester United. Nú síðast var núverandi stjóri Real Madrid nefndur til sögunnar.

Carlo Ancelotti hefur verið orðaður sem möguleiki en hann tæki þá við United liðinu í stuttan tíma og þá líklega til að ná tökum á stórstjörnum liðsins sem gengur illa að ná saman sem lið. Ítalinn er þekktur fyrir að vinna vel með stjörnuprýdd lið.

ESPN hefur heimildir fyrir áhuga United á þessum 62 ára Ítala en Ancelotti og Sir Alex Ferguson eru vinir. Richard Arnold, sem tók við framkvæmastjórastöðu félagsins af Ed Woodward fyrr á þessu ári, hefur leitað ráða hjá Sir Alex.

United ætlaði alltaf að ráða framtíðarstjóra í sumar og á fimm manna óskalista voru meðal annars þeir Mauricio Pochettino hjá PSG og Erik ten Hag hjá Ajax. Ferguson er sagður vera aðdáandi Pochettino en hefur ráðlagt félaginu sínu að íhuga að ráða Ancelotti ef Pochettino er ekki til.

Ancelotti er núverandi stjóri Real Madrid en þekkir vel til ensku úrvalsdeildarinnar sem fyrrum stjóri Chelsea og Everton.

Hann er gríðarlega reynslumikill og hefur unnið meistaratitil í Englandi (Chelsea 2010), í Þýskalandi (Bayern München 2017), á Ítalíu (AC Milan 2004) og í Frakklandi (PSG 2013). Ancelotti er líka á góðri leið með að vinna titilinn á Spáni á þessu tímabili.

Ancelotti hefur enn fremur unnið Meistaradeildina þrisvar sinnum þar af einu sinni með Cristiano Ronaldo hjá Real Madrid árið 2014 en líka tvisvar með AC Milan eða 2003 og 2007.

Ralf Rangnick tók við Manchester United liðinu fram á sumar eftir að Ole Gunnar Solskjær var látinn fara í nóvember. Hann gæti vissulega haldið áfram með liðið gangi illa að ráða framtíðarmann en gengi liðsins hefur ekki verið mjög sannfærandi undir stjórn Þjóðverjans.

Enn einn kostur er Luis Enrique en hann mun að minnsta kosti stýra spænska landsliðinu fram yfir heimsmeistaramótið í Katar sem er fram í nóvember og desember. Enska úrvalsdeildin á að byrja aftur 13. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×