Skoðun

Burt með einka­þoturnar!

Stefán Pálsson skrifar

Reykjavíkurflugvöllur er miðstöð innanlandsflugs á Íslandi. Þótt ýmsir horfi með áhuga til þeirra framkvæmda sem ráðast mætti í á flugvallarsvæðinu má þó segja að býsna víðtæk pólitísk sátt ríki um að flugvöllurinn muni ekki víkja fyrr en búið sé að finna innanlandsfluginu jafn góðan stað eða betri.

Það er þó ekki þar með sagt að öll flugstarfsemi sé jafn velkomin eða æskileg á flugvellinum. Þann 19. apríl árið 2013 undirrituðu t.a.m. þeir Jón Gnarr borgarstjóri og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra samkomulag um ýmis atriði tengd rekstri Reykjavíkurflugvallar. Í því var ákvæði þess efnis að allri umferð herflugvéla og flugs í þágu hernaðarlegrar starfsemi yrði hætt á flugvellinum, með þeirri einu undantekningu þegar nota þyrfi hann sem varaflugvöll eða í björgunarstörfum. Þetta góða samkomulag var hluti af áformum þáverandi borgarstjóra um að banna með öllu heræfingar í landi Reykjavíkur, markmið sem því miður náði ekki fram að ganga en brýnt er að endurvekja á næsta kjörtímabili.

Á sama hátt og borg og ríki úthýstu herflugvélunum af Reykjavíkurflugvelli fyrir tæpum áratug í samræmi við friðarstefnu borgarinnar, er sjálfsagt að huga að því nú að losna við einkaþoturnar af vellinum í anda loftslagsmarkmiða Reykjavíkur. Á degi hverjum má sjá fjölda þessara farartækja í grennd við gamla Loftleiðahótelið. Þessum vélum fylgir bensínstybba sem nágrannar kvarta yfir og hljóðmengun, því öfugt við innanlandsflugið þá lenda einkaþoturnar á öllum tímum sólarhringsins. Fram hefur komið að stöðugjöldin sem eigendur þeirra greiði á flugvellinum séu á pari við það sem kostar að leggja fólksbíl miðsvæðis í borginni.

Meginröksemdin fyrir því að stugga einkaflugvélunum til Keflavíkurflugvallar (ef ekki lengra) er þó umhverfisleg. Vart er hægt að hugsa sér meira mengandi samgöngumáta en einkaþotur auðkýfinga. Kolefnisfótspor slíkra ferðalaga er svimandi og siðleysið þeim mun meira í ljósi þess að í langflestum tilfellum er tilgangurinn sá eini að stytta örlítið ferðatíma milljónamæringa og tryggja að þeir þurfi ekki að umgangast venjulegt fólk. Einkaþotur eru siðferðislegt gjaldþrot.

Á tímum baráttu gegn hamfarahlýnun eiga stjórnvöld ekki að greiða leið þeirra sem kjósa að níðast á jörðinni á ferðum sínum um hana. Ef flutningur einkaþotuflugsins frá Reykjavík verður til að fækka þessum ferðum eitthvað, væri góður sigur unnin. Hinum ríku er ekkert of gott að taka flugrútuna í bæinn.

Höfundur er sagnfræðingur og frambjóðandi í forvali VG í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×