Innherji

Seðlabankastjóri: Ekki ólíklegt að stríðið hafi dómínóáhrif eins og farsóttin

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri. Vísir/Vilhelm

Ísland verður ekki fyrir jafn beinum efnahagsáhrifum af Úkraínustríðinu og aðrar Evrópuþjóðir að sögn Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra. Hann óttast þó áhrif olíuverðshækkana á íslenska ferðaþjónustu og ófyrirséð dómínóáhrif sem stríðið gæti hrundið af stað. Þetta kom fram í máli seðlabankastjóri á fundi með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í morgun.

„Varðandi Úkraínustríðið þá eru bein áhrif á Ísland ekki svo mikil,“ sagði Ásgeir. Hann benti á að verulega hefði dregið úr viðskiptum við Rússland frá árinu 2014 þegar Rússar lögðu innflutningsbann á matvæli, meðal annars frá Íslandi, vegna stuðning við refsiaðgerðir ESB og Bandaríkjanna.

Ásgeir nefndi að Rússland væri framleiðandi margra hrávara, til dæmis jarðgasi, og það „að taka Rússa út úr heimshagkerfinu“ leiddi til þess að verð á hrávörum hækkaði.

„En það hefur ekki beinlínis úrslitaáhrif á okkur í ljósi þess að um 90 prósent heimila á Íslandi eru kynt með hitaveitu og hitt er kynt með rafmagni sem er framleitt innanlands,“ bætti Ásgeir við. „Við erum að einhverju leyti aftengd þessari jöfnu.“

Hækkun á eldsneytisverði gæti hins vegar sett strik í reikning ferðaþjónustunnar að sögn seðlabankastjóra. „Hækkun á eldsneytisverði hefur áhrif á flug til landsins og það verður að hafa í huga að þessi mikli vöxtur í ferðaþjónustu á árunum 2014 til 2018 var að miklu leyti keyrður áfram af lágu olíuverði. Hátt olíuverð mun hafa áhrif á ferðaþjónustuna.“

Verðhækkanir á jarðgasi hafa veruleg áhrif á Evrópsk heimili – helmingur þýskra heimila eru kynt með jarðgasi – og leiddi Ásgeir líkur að því að stríðið myndi kynda undir verðbólgu, draga úr hagvexti og minnka svigrúm til einkaneyslu í Evrópu. „Við gætum séð óbein áhrif þaðan,“ sagði Ásgeir.

Það er miklu meira mál en fólk gerir sér grein fyrir að taka Rússa út úr heimshagkerfinu

Þá velti hann fyrir sér hvort stríðið myndi hafa ófyrirséð áhrif á heimshagkerfið í líkingu við áhrifin sem heimsfaraldur Covid hafði.

„Það gerði sér engin grein fyrir því hver áhrifin yrðu á heimshagkerfið,“ sagði Ásgeir og vísaði til aukinnar verðbólgu og bresta í framleiðslukeðjum heimshagkerfisins. „Þetta voru dómínóáhrif og mér finnst ekki ólíklegt að það komi dómínóáhrif af þessu stríði. Það er miklu meira mál en fólk gerir sér grein fyrir að taka Rússa út úr heimshagkerfinu.“


Tengdar fréttir

Innrásin í Úkraínu hefur víðtæk áhrif á hrávörumarkaði

Áhrifin sem innrás Rússa í Úkraínu hefur á hrávörumarkaði eru víðtæk og einkennast af töluverðri óvissu sem endurspeglast í miklum sveiflum. Þetta segir Brynjólfur Stefánsson, sjóðstjóri hjá Íslandssjóðum, en hann var áður yfir afleiðubók hráolíu hjá fjárfestingabankanum Morgan Stanley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×