Handbolti

Bjarki markahæstur í góðum sigri | Íslendingalið Melsungen vann öruggan sigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bjarki Már Elísson hefur verið sjóðandi heitur í liði Lemgo upp á síðkastið.
Bjarki Már Elísson hefur verið sjóðandi heitur í liði Lemgo upp á síðkastið. EPA-EFE/Khaled Elfiqi

Það voru Íslendingar í eldlínunni í fjórum leikjum í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Bjarki Már Elísson og félagar hans í Lemgo unnu góðan fjögurra marka sigur gegn Hannover-Burgdorf, 31-27, eftir að hafa leitt með þremur mörkum í hálfleik.

Bjarki átti frábæran leik í liði Lemgo og var markahæsti maður vallarins með níu mörk, en hann hefur farið á kostum í seinustu þremur leikjum sínum fyrir liðið.

Lemgo situr nú í níunda sæti deildarinnar með 22 stig eftir jafn marka leiki, átta stigum meira en Hannover-Burgdorf sem situr í 14. sæti.

Þá vann Íslendingalið Melsungen öruggan fjögurra marka sigur gegn Hamburg, 26-22. Elvar Örn Jónsson átti góðan leik í liði Melsungen og skoraði fimm mörk ásamt því að búa til þrjú önnur fyrir liðsfélaga sína. Arnar Freyr Arnarsson og Alexander Petersson skoruðu eitt mark hvor.

Melsungen situr í sjötta sæti þýsku deildarinnar með 27 stig eftir 22 leiki, tveimur stigum minna en Wetzlar sem situr í fimmta og seinasta Evrópusætinu.

Að lokum unnu Ýmir Örn Gíslason og félagar hans í Rhein-Neckar Löwen tveggja marka sigur gegn botnliði Minden, 33-31, og Andri Már Rúnarsson, Viggó Kristjánsson og félagar þeirra í Stuttgart gerðu jafntefli gegn Wetzlar, 26-26.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×