Skoðun

Leiðtogi sem lætur hlutina gerast

Ólafur Nielsen skrifar

Garðabær er í örum vexti og bærinn hefur tekið miklum stakkaskiptum á undanförnum árum. Bærinn sem áður var uppnefndur svefnbær er nú iðandi af mannlífi, bæjarbúar geta valið úr frábærum veitinga- og kaffihúsum og það er almennt meira um huggulegheit og meira að gerast í bænum. En það eru áskoranir tengdar vextinum og það eru veigamikil verkefni tengd skipulagsmálum, samgöngum og umhverfismálum sem við þurfum að takast á við næstu árin.

Góð þjónusta hefur verið eitt af aðalsmerkjum Garðabæjar en við þurfum að halda þjónustustiginu háu á sama tíma og sveitarfélagið stækkar og bæjarbúum fjölgar. Það er ekki nóg að skipuleggja byggðina, tryggja fjármögnun verkefna og halla sér svo aftur í stólnum og bíða eftir að hlutirnir gerist – við þurfum sem aldrei fyrr að vera á tánum og fylgja málum fast eftir.

Það sem Garðabær þarf núna er leiðtogi með sterka framtíðarsýn sem lætur hlutina gerast. Leiðtoga sem rífur upp símann þegar íbúagötur eru ófærar vegna snjókomu. Leiðtoga sem sest niður með starfsfólki og stjórnendum og finnur lausnir á mönnunarvanda. Leiðtoga sem sættir sig ekki við að bregðast væntingum bæjarbúa. Leiðtoga sem fer út á örkina, hlustar á raddir, leitar lausna og leiðir mál til lykta.

Þessum leiðtoga kynntist ég í Áslaugu Huldu þegar ég kom fyrst að starfi Sjálfstæðisflokksins fyrir 17 árum síðan. Hún er manneskjan sem lætur fólki finnast það velkomið í hópinn, er hvetjandi, jákvæð og hefur einstakt lag á að draga fram styrkleika fólks og láta hlutina gerast.

Á morgun kjósum við leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ. Áslaug Hulda er sá fyrirliði sem ég trúi að geti farið fyrir samhentum hóp sem saman skrifar áhugaverðan næsta kafla í þróun Garðabæjar. Þess vegna set ég Áslaugu Huldu í 1. sæti í prófkjörinu á morgun.

Höfundur er framkvæmdastjóri og fyrrv. formaður SUS




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×