Enski boltinn

Segir að enginn stjóri geti fundið skyndilausnir fyrir Tottenham

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Antonio Conte segir það ómögulegt að laga vandamál Tottenham á stuttum tíma.
Antonio Conte segir það ómögulegt að laga vandamál Tottenham á stuttum tíma. Robin Jones/Getty Images

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, segir að enginn knattspyrnustjóri í heiminum geti fundið töfralausnina til að laga vandamál félagsins á stuttum tíma.

Conte tók við Tottenham í nóvember á seinasta ári og fékk þá í hendurnar óstöðugt lið. Þrátt fyrir að gengi liðsins hafi batnað undir stjórn Ítalans þá er óstöðugleikinn langt frá því að vera horfinn.

Liðið vann frækinn sigur gegn Englandsmeisturum Manchester City um miðjan febrúar, tapaði svo gegn fallbaráttuliði Burnley í næsta leik, vann svo 4-0 sigur gegn Leeds og féll svo úr leik í FA-bikarnum eftir tap gegn B-deildarliði Middlebrough.

„Saga Tottenham er svona, mikið upp og niður,“ sagði Conte á blaðamannafundi fyrir leik liðsins gegn Everton sem fram fer á mánudagskvöldið.

„Til að við getum orðið samkeppnishæfir og farið að reyna að vinna eitthvað og berjast um mikilvæga hluti og verða sterkt lið þá er það fyrsta sem við þurfum að gera er að finna jafnvægi.“

„Að gera það og að breyta stöðunni sem hefur verið hjá félaginu í mörg, mörg ár er ekki einfalt verkefni. Til styttri tíma litið er ómögulegt að gera það, ekki bara fyrir mig, heldur hvaða þjálfara sem er sem myndi koma hingað.“

„Þetta hefur verið saga félagsins seinustu tuttugu ár,“ sagði Conte að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×