Einar Þorsteinsson var að tilkynna í Vikunni með Gísla Marteini að hann gefi kost á sér. Hann segist hafa rætt við uppstillingarnefnd flokksins og að hún sé enn að störfum en hann sé þó sá eini sem hefur gefið kost á sér í fyrsta sæti.
„Maður kemur kófsveittur undan þessum feldi,“ sagði Einar.
Einar sagði upp störfum á Ríkisútvarpinu í byrjun árs en þar hafði hann starfað um árabil og meðal annars verið einn helsti stjórnandi Kastljóssins undanfarin ár.
Hann segist hafa verið búinn að þiggja starf sem honum bauðst rétt fyrir áramót, nú virðist sem ekkert verði af þeirri ráðningu. „Svo bara hefur lífið tekið í taumana,“ segir hann.
„En varst þú ekki í Sjálfstæðisflokknum?“ spurði Þorbjörg Þorvaldsdóttir, fráfarandi formaður Samtakanna '78, oddviti Garðabæjarlistans fyrir komandi sveitarstjórnarkosninga og einn gesta Vikunnar að þessu sinni.
„Sko, þegar ég var tvítugur þá hafði ég rosalega margar skrýtnar skoðanir og ég er búinn að skipta um flestar,“ svaraði Einar og uppskar hlátrasköll.