Enski boltinn

Félagarnir undrandi á fjarveru Ronaldos

Sindri Sverrisson skrifar
Cristiano Ronaldo með hendur á mjöðminni sem mun hafa komið í veg fyrir að hann gæti spilað í gær.
Cristiano Ronaldo með hendur á mjöðminni sem mun hafa komið í veg fyrir að hann gæti spilað í gær. Getty/Nathan Stirk

Cristiano Ronaldo var ekki með Manchester United í borgarslagnum gegn Manchester City í gær, í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Samkvæmt frétt The Athletic var hann ekki einu sinni í borginni.

Hinn 37 ára gamli Ronaldo mun ekki hafa getað tekið þátt í leiknum vegna meiðsla í mjaðmavöðva. United steinlá, 4-1, og vonir liðsins um sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð dvínuðu enn.

Samkvæmt The Athletic flaug Ronaldo heim til Portúgals áður en leikurinn í Manchester hófst. Miðillinn virti segir að það hafi vakið furðu í leikmannahópi United að Ronaldo skyldi ekki að minnsta kosti vera á svæðinu og sýna liðsfélögum sínum stuðning í þessum stórleik.

Hvort sem fjarvera Ronaldos hafði áhrif eða ekki þá hafði United ekki roð við grönnum sínum og tvennur frá Kevin De Bruyne og Riyad Mahrez tryggðu City öruggan sigur. Næsti leikur United er gegn Tottenham á laugardaginn og Ronaldo hefur því tæpa viku til að jafna sig fyrir þann leik.

Roy Keane, fyrrverandi fyrirliði United og sérfræðingur Sky Sports, virtist telja eitthvað ósagt varðandi fjarveru Ronaldos í gær:

„Það virðist vera. Ég kann alla vega ekki við það þegar stjórinn [Ralf Rangnick] talar um mjaðmaverki hjá honum, ég næ því ekki. Við tölum um Ronaldo eins og eitthvað vélmenni, hann er sárasjaldan meiddur en svo kemur hann af og til með það að það séu mjaðmameiðsli. Þetta stemmir ekki alveg í mínum huga,“ sagði Keane.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×