Körfubolti

Ekkert grín hjá Jókernum eftir hléið

Sindri Sverrisson skrifar
Nikola Jokic með boltann en Kevon Looney má ekki fá hann.
Nikola Jokic með boltann en Kevon Looney má ekki fá hann. AP/David Zalubowski

Serbinn Nikola Jokic hélt áfram að fara á kostum í NBA-deildinni í körfubolta í nótt þegar hann náði þrefaldri tvennu í 131-124 sigri Denver Nuggets á Golden State Warriors.

Jokic er sá næstfljótasti í sögunni til að ná þrefaldri tvennu 75 sinnum á ferlinum. Það hefur hann nú gert í 511 leikjum og aðeins Oscar Robertson verið fljótari, eða í aðeins 182 leikjum.

Jokic, sem átti annað sögulegt kvöld á sunnudaginn, skoraði 32 stig gegn Golden State, tók 15 fráköst og gaf 13 stoðsendingar.

Jókerinn hefur nú náð þrefaldri tvennu þrisvar sinnum eftir hléið vegna Stjörnuleiksins 20. febrúar. Allir hinir leikmennirnir í deildinni, til samans, hafa afrekað það tvisvar sinnum.

„Ótrúlegur leikmaður og stórkostlegur í kvöld“

Jokic var valinn verðmætasti leikmaður deildarinnar í fyrra og að mati Steve Kerr, þjálfara Golden State, verðskuldar hann nafnbótina aftur:

„Ég er ekki með kosningarétt en Jokic er bara ótrúlegur leikmaður og var stórkostlegur í kvöld,“ sagði Kerr og bætti við: „Hann gerir liðsfélagana betri og hann gerir mótherjunum svo erfitt fyrir að verjast því það er sama hvað maður gerir, hann er alltaf með mótsvar.“

Af öðrum úrslitum má nefna að Julius Randle skoraði 46 stig og tók 10 fráköst í 131-115 sigri New York Knicks á Sacramento Kings, og ófarir LA Lakers héldu áfram þegar liðið tapaði 117-110 fyrir San Antonio Spurs.

Úrslitin í nótt:

  • Detroit 113-110 Atlanta
  • Philadelphia 121-106 Chicago
  • Miami 123-106 Houston
  • Minnesota 124-81 Portland
  • Dallas 111-103 Utah
  • San Antonio 117-110 LA Lakers
  • Denver 131-124 Golden State
  • Sacramento 115-131 New York
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×