Handbolti

Bjarki markahæstur í Íslendingaslag Evrópudeildarinnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bjarki Már Elísson skoraði tíu mörk fyrir Lemgo í kvöld.
Bjarki Már Elísson skoraði tíu mörk fyrir Lemgo í kvöld. EPA-EFE/Petr David Josek

Bjarki Már Elísson var markahæsti maður vallarins með tíu mörk er Lemgo hafði betur 39-35 gegn Viktori Gísla Hallgrímssyni og félögum hans í toppliði GOG í B-riðili Evrópudeildarinnar í handbolta í kvöld.

Bjarki og félagar náðu yfirhöndinni um miðbik fyrri hálfleiksins náðu mest fjögurra marka forystu í stöðunni 15-11. Þeir leiddu með tveimur mörkum þegar flautað var til hálfleiks, 19-17.

Heimamenn í Lemgo héldu svo forskoti sínu allan síðari hálfleikinn og unnu að lokum gríðarlega mikilvægan fjögurra marka sigur, 39-35.

Bjarki var sem áður segir markahæsti maður vallarins með tíu mörk úr ellefu skotum fyrir Lemgo. Viktor Gísli átti fínan leik í marki GOG og varði níu skot af þeim 29 sem hann fékk á síg, en það gerir 31 prósent markvörslu.

Lemgo situr nú í fjórða sæti riðilsins með 12 stig eftir alla tíu leiki riðlakeppninnar. GOG trónir enn á toppi riðilsins með 15 stig, en Nantes og Benfica koma þar tveimur stigum á eftir og mætast innbyrgðis í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×