Enski boltinn

Wenger ásakaði Liverpool-manninn um að svindla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Trent Alexander-Arnold talar við Alexis Sanchez eftir að Sílemaðurinn hafði fengið rauða spjaldið.
Trent Alexander-Arnold talar við Alexis Sanchez eftir að Sílemaðurinn hafði fengið rauða spjaldið. AP/Jon Super

Arsene Wenger, fyrrum knattspyrnustjóri Arsenal, var allt annað en sáttur þegar hans gamli lærisveinn, Alexis Sanchez, var rekinn af velli í seinni leik Liverpool og Internazionale í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í gær.

Alexis Sanchez fékk beint rautt spjald fyrir brot á Brasilíumanninum Fabinho. Inter hafði skömmu áður komist yfir í leiknum en það gerði verkefnið mun erfiðara að þurfa að skora fleiri mörk manni færri.

Það tókst ekki og Liverpool liðið skreið áfram í átta liða úrslitin þrátt fyrir tap á Anfield.

Wenger vinnur sem sérfræðingur hjá Bein Sports og hann hafði ákveðna skoðun á brotinu og þá sérstaklega Fabinho. Alexis Sanchez spilaði náttúrulega lengi undir hans stjórn hjá Arsenal.

„Hann var að svindla því hann gerði alltof mikið úr þessu,“ sagði Arsene Wenger um Fabinho.

„Þú getur samt ekki sagt að þetta hafi verið algjört plat. Kannski hefði hann átt að standa fyrr upp,“ sagði Wenger.

„Þegar þetta er einn af þínum leikmönnum þá segjum við að hann hafi verið klókur en við hlutlausu, eins og við eigum að vera, segjum að hann hefði átt að gera minna úr þessu,“ sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×