Innherji

Sóttvarnarhótelin kostuðu ríkið rúma fjóra milljarða

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Njáll Trausti Friðbertsson beindi fyrirspurn sinni um sóttvarnarhótel til heilbrigðisráðherra. Mikill styr stóð um það í íslensku samfélagi hvort skikka ætti fólk í einangrun á slík hótel eða ekki þegar faraldurinn stóð sem hæst.
Njáll Trausti Friðbertsson beindi fyrirspurn sinni um sóttvarnarhótel til heilbrigðisráðherra. Mikill styr stóð um það í íslensku samfélagi hvort skikka ætti fólk í einangrun á slík hótel eða ekki þegar faraldurinn stóð sem hæst.

Heildarkostnaður ríkisins við leigu og rekstur sóttvarnahótela frá því að heimsfaraldur COVID-19 hófst eru rúmir fjórir milljarðar króna. Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn Njáls Trausta Friðbertssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem birtist á vef Alþingis rétt í þessu.

Njáll Trausti beindi fyrirspurn sinni að heilbrigðisráðherra og spurði hver kostnaður ríkisins var fyrir hverja nótt að meðaltali á sóttvarnahótelum frá því að heimsfaraldurinn hófst og hver heildarkostnaður ríkisins við leigu og rekstur sóttvarnahótela hafi verið á sama tíma. Samkvæmt svari við fyrirspurn Njáls er heildarkostnaður ríkisins við leigu og rekstur sóttvarnahótela 4.086.443.262 krónur.

Mikill styr stóð um hvort skikka ætti fólk í einangrun á sérstök sóttkvíarhótel í fyrra og efuðust margir um lögmæti aðgerðarinnar. Að endingu var skorið úr um að sóttvarnalæknir hefði gengið lengra en sóttvarnalög heimiluðu með því að skikka fólk sem sannarlega hafði í hús að venda hér á landi til að sæta fimm daga sóttkví í til þess gerðu sóttvarnarhúsi.

Ráðuneytið sendi fyrirspurnir til Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, Heilbrigðisstofnunar Austurlands og Sjúkratrygginga Íslands í viðleitni sinni til að svara fyrirspurn þingmannsins, en stofnanirnar hafa allar gert samninga um leigu á sóttvarnahótelum.

Enn fremur kemur fram í svarinu að kostnaður ríkisins fyrir hverja nótt hafi verið að meðaltali 4.758 kr. hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, 15.735 kr. hjá Sjúkratryggingum Íslands og 16.000 kr. hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands.


Tengdar fréttir

„Lokum allt þetta hyski inni“

Ásdís Halla Bragadóttir, rithöfundur með meiru, geldur varhug við frumvarpi Samfylkingarinnar um sóttvarnarhótel og segir það ekki aðeins afturhvarf til fortíðar heldur popúlískt að upplagi.

62 prósent hefðu viljað skikka fólk á sóttvarnahótel

Um 34 prósent landsmanna eru sátt við nýjustu reglugerð heilbrigðisráðherra um aðgerðir á landamærum sem fela í sér að komufarþegar til Íslands sem eiga að fara í sóttkví geti verið í heimahúsi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×