Sport

Liðið hennar Anníe Mistar í sviðsljósi CrossFit-heimsins í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir með liðsfélögum sínum Khan Porter, Lauren Fisher og Tola Morakinyo.
Anníe Mist Þórisdóttir með liðsfélögum sínum Khan Porter, Lauren Fisher og Tola Morakinyo. Instagram/@anniethorisdottir

Anníe Mist Þórisdóttir og nýju liðsfélagar hennar í liðakeppni heimsleikanna í CrossFit munu sjá um að kynna þriðju og síðustu æfinguna á The Open í kvöld.

Anníe Mist keppir ekki í einstaklingskeppni heimsleikanna í ár heldur í liði undir merkjum CrossFit Reykjavík. Með henni í liði eru þau Lauren Fisher, Khan Porter og Tola Morakinyo.

Eins og venjan er á The Open þá er hver æfing kynnt með keppni milli tveggja af besta CrossFit fólki heims og þannig hefur það einnig verið í ár.

Nú þegar komið er að æfingu 22.3 þá munu tvö lið keppa. Annars vegar eru það Anníe Mist og félagar hennar í CrossFit Reykjavík og hins vegar er það CrossFit Hendersonville frá Tennessee-fylki í Bandaríkjunum.

Keppni þeirra hefst klukkan átta að íslenskum tíma í kvöld og verður hægt að fylgjast með öllu á YouTube-síðu heimsleikanna.

Það er ljóst að Anníe Mist og þau Lauren Fisher, Khan Porter og Tola Morakinyo eru þegar búin að ná upp góðum takti eins og má sjá á þessu stórskemmtilega myndbandi sem þau settu inn á Instagram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×