Innlent

Konur á barn­eignar­aldri fá ekki nóg af járni

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Ungar konur fá síður nóg af mikilvægum næringarefnum.
Ungar konur fá síður nóg af mikilvægum næringarefnum. Vísir/getty

Konur á barneignaraldri á Íslandi fá síður nóg af mikilvægum næringarefnum á borð við joð, C-Vítamín og fólat. Engin þeirra nær ráðlögðum dagskammti af járni.

Þetta kemur fram í nýrri landskönnun á mataræði Íslendinga sem unnir er á vegum embættis landlæknis og rannsóknarstofu í næringarfræði við HÍ. Könnunin var tekin árin 2019-2021 og tóku 822 þátt. Á Facebook síðu embættis landslæknis er hægt að horfa á kynningu landskönnunarinnar sem hófst klukkan 11.00.

Niðurstöður könnunarinnar leiða í ljós að neysla landsmanna á viðbættum sykri og rauðu kjöti minnkar en landsmenn þurfa að taka sig á í grænmetis- og ávaxtaáti til að ná viðmiðum.

Verulega hefur dregið úr neyslu á rauðu kjöti eða því sem nemur rúmum 60 grömmum á viku að meðaltali, eða tíu prósent. Hlutfall orku úr viðbættum sykri hefur minnkað og fer úr 9 prósent í 7 að meðaltali. Athygli vekur að þrátt fyrir að mjólkurneysla hafi minnkað frá síðustu viðmiðunarkönnun þá hefur neysla á osti aukist. Samdráttur er þá að finna í neyslu landsmanna á kolvetnum en hlutfall heildarorku úr kolvetnum fer úr 42 prósent í viðmiðunarkönnun og niður í 37 prósent í hinni nýju.

Öllu verri fréttir blasa við þegar neysla landsmanna á grænmeti og ávöxtum er skoðuð.

„Ef við byrjum á því að skoða grænmetisneysluna þá kemur í ljós að hún stendur í stað og er að meðaltali 114 gr. á dag. Einungis 1 prósent þátttakenda borða 250 gr. eins og ráðlagt er. Þá hefur dregið úr neyslu á ávöxtum og berjum. Meðalneysla ávaxta minnkar frá síðustu könnun úr 118 gr. á dag í 98 gr. á dag. Einungis 4 prósent þátttakenda borða 250 gr. af ávöxtum eins og ráðlagt er,“ sagði Hólmfríður Þorgeirsdóttir verkefnastjóri hjá embætti landlæknis í kynningu á niðurstöðum rannsóknarinnar.

Alma Möller hélt stutta ræðu á blaðamannafundi í morgun þar sem niðurstöður landskönnunar á mataræði voru kynntar.

Blikur eru á lofti hvað járnneyslu ungra kvenna varðar. Enginn ungur kvenkynsþátttakandi í landskönnun á mataræði náði að neyta því sem nemur ráðlögðum dagskammti af járni. Ráðlagður skammtur er 15 mgr. á dag. Járn er mikilvægt næringarefni fyrir súrefnisflutning í blóðinu, ónæmiskerfið og einnig fyrir heila-og taugaþroska barna.

„Konur í þessum aldurshópi, og þær eru jú á barneignaraldri, fá síður nóg af mikilvægum næringarefnum á borð við járn, joð, C-vítamín og fólat og að auki er D-vítamín neysla þeirra að jafnaði undir ráðlagðri inntöku líkt og hjá ungum karlmönnum en það er sá hópur sem fær minnst af D-vítamíni,“ sagði Alma Möller, landlæknir sem flutti stutta ræðu á kynningunni.


Tengdar fréttir

Hvaða lífs­stíll er góður fyrir heilsuna?

Nýtt ár markar oft upphaf þess að fólk setji sér það markmið að bæta eigin heilsu. Það geta verið misjafnar leiðir að því markmiði en á þessum tímamótum er algengt að fókusinn sé settur á þyngdartap.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×