Nokkuð jafnræði var með liðinum í upphafi leiks og þegar fyrsta leikhluta lauk höfðu gestirnir í Tindastól tveggja stiga forskot, 19-17. Þeir juku svo forkot sitt fyrir hálfleik og fóru með átta stiga forystu inn í hlé, staðan 39-31 Stólunum í vil.
ÍR-ingar snéru taflinu svo við í upphafi síðari hálfleiks og jöfnuðu leikinn í þriðja leikhluta. Þegar komið var að lokaleikhlutanum var staðan jöfn 55-55. Það virtist ekkert geta skilið liðin að í lokaleikhlutanum, en þegar tæpar tvær mínútur voru til leiksloka var enn jafnt, 71-71. Tindastóll skoraði þá fjögur stig gegn engu stigi heimamanna á lokakaflanum og vann að lokum nauman fjögurra stiga sigur, 75-71.
Taiwo Hassan Badmus var stigahæsti maður vallarins með 27 stig fyrir gestina að norðan, en hann tók einnig átta fráköst og gaf eina stoðsendingu. Í liði ÍR var Triston Isaiah Simpson atkvæðamestur með 22 stig, fjögur fráköst og tvær stoðsendingar.
Tindastóll situr nú í sjötta sæti deildarinnar með 22 stig eftir 19 leiki, átta stigum meira en ÍR-ingar sem sitja í níunda sæti. ÍR-ingar geta því ekki náð Stólunum og strákarnir að norðan eru því öruggir með sæti í úrslitakeppninni.