Fjármálaráðherra skrifaði um mögulega inngöngu Íslands að Evrópusambandinu á Facebook-síðu sinni fyrr í dag. Hann rekur efnahagssöguna frá hruni stuttlega og segir vel hafa gengið án aðildar að sambandinu.
„Á rúmum áratug hefur íslenska þjóðin í tvígang gengið gegnum djúpar alþjóðlegar efnahagslægðir og sýnt mikla þrautsegju og aðlögunarhæfni. Íslenska krónan hefur ótvírætt sannað gildi sitt, styrkur efnahagslífsins er mikill og eftir allt þetta getum við fullum fetum sagt: framtíðin er björt.
Það er þess vegna með miklum ólíkindum að nú, skömmu eftir kosningar, skuli því haldið fram að brýnt sé að sækja að nýju um aðild að ESB,“ heldur fjármálaráðherra áfram.
Hann telur að Íslendingar muni ekki standa betur að vígi í hermálum með því að tilheyra sambandinu. Aðild að NATO og varnarsamningum við Bandaríkin séu feykinóg og mögulegar ógnir sé hægt að tækla án aðildar að ESB.
Bjarni lýkur færslunni á því að segja að Sjálfstæðisflokkurinn telji inngöngu að ESB óþarfa:
„Það fylgir þeirri sýn að við séum ávallt tilbúin að axla ábyrgð á stöðu mála hér heima fyrir, finna lausnir og leysa úr málum af eigin rammleik á lýðræðislegan hátt í opnu og frjálsu samfélagi, en sópa ekki hvers kyns áskorunum eða viðfangsefnum stjórnmálanna út í ESB hornið í sífellu. Það er uppgjöf fyrir verkefnum samtímans.“