Innlent

Fleiri viðvaranir gefnar út og þær víða orðnar appelsínugular

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Töluverð úrkoma fylgir lægðinni og verður því aukið álag á fráveitukerfi. 
Töluverð úrkoma fylgir lægðinni og verður því aukið álag á fráveitukerfi.  Vísir/Vilhelm

Appelsínugular viðvaranir hafa nú verið gefnar út vegna stormsins sem spáð er á morgun en gular viðvaranir voru upprunalega gefnar út í morgun. Viðvaranir hafa nú verið gefnar út fyrir alla landshluta. 

Djúp lægð er væntanleg að suðurodda Grænlands á morgun og sendir hún skil yfir landið með sunnan og suðaustan stormi eða roki. Gert er ráð fyrir að talsverð úrkoma fylgi og fer úrkoman fljótlega yfir í rigningu samhliða hlýnandi veðri. 

Birta Líf Kristinsdóttir veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands varar landsmenn alla við vatnstjóni sem af lægðinni gæti hlotist. Minni úrkoma verður á norðan og norðaustanverðu landinu en þar sem hlýtt verður í veðri má gera ráð fyrir að snjór muni bráðna. 

„Þetta verður í rauninni eins og hárþurrka á snjóinn þar, þannig að það verður líka þessi bráðnun þar og þau ættu að finna fyrir vatninu þar líka. Svo eru alveg líkur á krapaflóðum um sunnanvert landið til dæmis,“ segir Birta.

Viðvaranir í öllum landshlutum á morgun

Fyrstu viðvaranir taka gildi klukkan tíu í fyrramálið en gul viðvörun verður þá í gildi á höfuðborgarsvæðinu og appelsínugul í Faxaflóa. Klukkan ellefu bætast síðan við appelsínugular viðvaranir á Vestfjörðum, í Breiðafirði og á miðhálendinu. 

Á hádegi tekur síðan gildi gul viðvörun á Suðurlandi, klukkan 13 tekur gildi appelsínugul viðvörun á Ströndum og Norðurlandi eystra, og svo klukkan 17 taka gildi gular viðvaranir á Norðurlandi eystra og Austurlandi að Glettingi. 

Gul viðvörun hefur ssömuleiðis verið gefin út fyrir suðausturland en það er vegna talsverðrar rigningar frekar en roks. Sömuleiðis er gert ráð fyrir talsverðri úrkomu á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og Faxaflóa og má búast við auknu álagi á fráveitukerfi í þeim landshlutum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×