Bjarki Már Elísson var lang markahæstur í tveggja marka sigri Lemgo á Wetzlar, 29-27. Bjarki gerði 12 mörk í leiknum. Lemgo er áfram í 9. sæti eftir sigurinn en nú með 24 stig.
Ómar Ingi Magnússon var markahæstur í þriggja marka sigri Magdeburg á Stuttgart, 27-30. Ómar Ingi gerði átta mörk á meðan að Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði fimm. Viggó Kristjánsson var markahæstur hjá Stuttgart með fimm mörk en Andri Már Rúnarsson komst ekki á blað fyrir Stuttgart. Magdeburg rígheldur í toppsæti deildarinnar en þeir eru nú komnir með sex stiga forskot á toppnum, alls 44 stig. Stuttgart er í 15. sæti með 12 stig.
Elvar Örn Jónsson gerði þrjú mörk og Arnar Freyr Arnarsson og Alexander Petersson sitt markið hvor í þriggja marka tapi Melsungen á útivelli gegn Rhein-Neckar Löwen, 29-26. Ýmir Örn Gíslason gerði eitt mark fyrir Rhein-Neckar. Rhein-Neckar Löwen er í 10. sæti með 19 stig á meðan Melsungen er í 6. sæti með 27 stig.
Teitur Örn Einarsson komst ekki á blað í 35-21 sigri Flensburg á HBW Balingen-Weilstetten. Daníel Þór Ingason gerði eitt mark fyrir HBW. Flensborg er með 35 stig í 3. sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir Kiel sem er í öðru sæti ásamt því að eiga leik til góða á Kiel. HBW er á botni deildarinnar með 9 stig.