Skoðun

Síminn, Voda­fone og Nova – „Eru í­búar í dreif­býli minna virði en í­búar í þétt­býli?“

Eyjólfur Ingvi Bjarnason skrifar

Fyrir skemmstu var birt svar við fyrirspurn um farsímasamband í dreifbýli á vef Alþingis. Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur þingmanni er hér með þakkað fyrir að vekja athygli þingheims á þessu brýna máli.

Í svari ráðherra kemur fram að árið 2021 voru 117 lögheimili með lítið eða ekkert símasamband og 1693 lögheimili með slitrótt eða stopult samband. Athugið "slitrótt samband" er ágætis samband utandyra en slitrótt innandyra og ólíklegt að merkið sé sterkt um allt húsið (gæti verið gott við glugga o.s.frv.).

Semsagt 27% lögheimila í dreifbýli á Ísland búa við ekkert eða stopult farsímasamband árið 2021. Hlutfallið er 40% hér í Dalabyggð. Þó frábært sé að fá bætt netsamband með ljósleiðara er staðan sú í dreifbýli að þegar hann dettur út vegna bilana og/eða rafmagnsleysis þá er farsíminn eina fjarskiptaleiðin ef eitthvað kemur uppá eftir að fastlínusímkerfið var lagt niður. Í viðtali við mbl.is fyrr í vetur segir Guðrún Blöndal á Valþúfu sem býr við lélegt farsímasamband að „svör við fyrirspurn um símamastur sem myndi laga ástandið á Valþúfu og næsta bæ og jafnvel á Skógarströnd sem er hinum megin fjarðarins að það sé of dýr aðgerð fyrir jafn fáa íbúa.“

Er það virkilega svo að stjórnendur Símans, Vodafone og Nova meti íbúa í dreifbýli minna virði en íbúa í þéttbýli. Snýst allt um að hámark arðsemi eiginfjár hjá ykkar fyrirtækjum. Er engin samfélagsleg ábyrgð til staðar hjá ykkur. Allt tal um 99,9% samband á heimilum landsins er fyrirsláttur ef staðan er sú að ekki er hægt að ná samband þegar slys eða önnur óhöpp verða. Að ég tali nú ekki um stafræna þjónustu en það þarf farsímasamband til að virkja rafrænt auðkenni í síma til að sinna ýmsum erindum í stjórnkerfinu.

Íbúar í dreifbýli gera sömu kröfu um þjónustu óháð búsetu og íbúar í þéttbýli. Ágætu fjarskiptafyrirtæki, kippið þessu í lag, ekki seinna en í gær.

Höfundur er oddviti sveitarstjórnar Dalabyggðar.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×