Körfubolti

Kyrie fékk að spila og hann bauð upp á 60 stiga kvöld: „NBA á stórkostlegum stað“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kyrie Irving sést hér eftir stórkostlegan leik sinn á Flórída í nótt.
Kyrie Irving sést hér eftir stórkostlegan leik sinn á Flórída í nótt. AP/Phelan M. Ebenhack

Brooklyn Nets er líklega eina liðið í NBA-deildinni sem er miklu betra að mæta á útivelli en á heimavelli þessa dagana. Ástæðan er auðvitað að hinn frábæri Kyrie Irving má bara spila útileikina vegna bólusetningareglna. Irving bauð NBA-deildinni upp á sextíu stiga mann annað kvöldið í röð þegar hann var á kostum í Orlando í nótt.

Kyrie Irving skoraði 60 stig í 150-108 útisigri Brooklyn Nets á Orlando Magic en kvöldið áður hafði Karl-Anthony Towns skoraði 60 stig fyrir Minnesota Timberwolves í San Antonio.

„Þetta sýnir bara að við erum á sögulegri vegferð,“ sagði Kyrie Irving eftir leikinn. Hann hitti úr 20 af 31 skoti sínu þar af 8 af 12 þriggja stiga skotum. Hann skoraði þessi 60 stig bara á 35 mínútum.

Kyrie setti bæði persónulegt stigamet sem og að bæta félagsmet Deron Williams sem skoraði á sínum tíma 57 stig í leik með Nets.

„Kvöldið eftir að Karl Towns átti ótrúlega frammistöðu þá kemur Kyrie og gerir það kvöldið eftir. Þetta sýnir að NBA er á stórkostlegum stað. Við erum að sjá fullt af hæfileikum á hverju kvöldi og þetta var ein af þeim bestu,“ sagði Kevin Durant. Hann skoraði 19 stig sjálfur í þessum fjórða sigurleik Nets-liðsins í röð.

Kyrie var meðal áhorfenda þegar Kevin Durant skoraði 53 stig á sunnudaginn en nú urðu þeir fyrstu liðsfélagarnir í sögu NBA til að skora að fimmtíu stig eða meira í tveimur leikjum í röð.

Kyrie skoraði 41 stig í fyrri hálfleiknum og var sá fyrsti í NBA til að ná því í næstum því tvo áratugi eða síðan Kobe Bryant skoraði 42 stig á móti Washington 28. mars 2003.

„Það voru þarna nokkur skot sem ég hefði ekki átt að taka. Erfið skot þegar ég var tvídekkaður og sá þriðji að kom í mig líka. En svo framarlega sem ég get gert þetta með bros á vör og liðsfélagarnir voru ekki of ósáttir með mig þá var það þess virði,“ sagði Kyrie.

Þetta var sjötti fimmtíu stiga leikur Kyrie á ferlinum og sá sextándi í NBA-deildinni í vetur. Kyrie og Durant eru með tvo alveg eins og þeir LeBron James hjá Los Angeles Lakers og Jayson Tatum hjá Boston Celtics.

  • Úrslitin í NBA í nótt:
  • Indiana Pacers - Memphis Grizzlies 102-135
  • Orlando Magic - Brooklyn Nets 108-150
  • Miami Heat - Detroit Pistons 105-98
  • New Orleans Pelicans - Phoenix Suns 115-131

Lögmál leiksins er vikulegur þáttur um NBA-deildina sem er sýndur á mánudögum á Stöð 2 Sport 2. NBA-deildin er hluti af Sport Erlent sem kostar kr. 3.990 á mánuði. Smelltu hér til að kaupa áskrift.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×