Körfubolti

„Það er alltaf hungur í Keflavík að fá titla í hús“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valur Orri Valsson nefbrotnaði í síðasta leik á móti Stjörnunni.
Valur Orri Valsson nefbrotnaði í síðasta leik á móti Stjörnunni. Vísir/Bára Dröfn

Valur Orri Valsson og félagar í Keflavíkurliðinu mæta Stjörnunni í dag í undanúrslitum VÍS bikars karla í körfubolta.

„Þetta leggst bara mjög vel í okkur. Það eru tíu ár síðan að bikarinn var í Keflavík síðast og það er bara tilhlökkun í okkur enda alltaf skemmtilegt að spila bikarleiki,“ sagði Valur Orri Valsson í samtali við Ingva Þór Sæmundsson.

„Við erum búnir að vera í smá ströggli, nýir menn að koma inn og allt það. Það er engin afsökun í svona leikjum. Það er bara hvaða lið kemur tilbúnara til leiks og sýnir meiri baráttu. Ég held að gengið skipti engu í svona leikjum menn þurfa bara að mæta tilbúnir og þá held ég að við getum gert góða hluti,“ sagði Valur Orri.

Klippa: Viðtal við Val Orra Valsson

„Það er alltaf hungur í Keflavík eftir því að fá titla í hús. Það er stórt tækifæri til þess núna. Eftir að hafa tapað í lokaúrslitunum í fyrra þá væri skemmtilegt að taka þennan titil núna,“ sagði Valur.

Hvað þarf Keflavíkurliðið að gera til að vinna Stjörnuna?

„Í svona bikarleikjum þá þarftu bara að mæta tilbúnari. Sýna meiri baráttu og það skilar alltaf svona sigrum,“ sagði Valur en það má sjá viðtalið við hann hér fyrir ofan.

Undanúrslitaleikur Keflavíkur og Stjörnunnar fer fram í Smáranum í Kópavogi og hefst klukkan 17.15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×