Körfubolti

Gæsahúð og geðshræring eftir sigurkörfu frá miðju

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liðsfélagar Kate Cordes fagna henni eftir þessa ótrúlegu körfu.
Liðsfélagar Kate Cordes fagna henni eftir þessa ótrúlegu körfu. Twitter

Kate Cordes kom sínu liði í úrslitaleikinn á fylkismeistaramótinu með ótrúlegri sigurkörfu frá miðju.

Það hafa verið skorað margar magnaðar körfur í sögu körfuboltans og ein bættist í viðbót um helgina í leik í körfuboltakeppni gagnfræðiskólana í Bandaríkjunum.

Shakopee vann þá afar dramatískan 50-47 sigur á Eden Prairie í baráttunni um sæti í State Girls Basketball Tournament í Minnesota-fylki í Bandaríkjunum.

Það voru bara 2,6 sekúndur eftir af leiknum þegar Shakopee átti innkast við miðlínu. Það var svo sem ekki mikið meiri tími til annars en að láta bara vaða af löngu færi.

Það gerði einmitt Kate Cordes sem fékk boltann og lét vaða. Boltinn söng í körfunni og þakið sprakk af húsinu.

„Ég trúi þessu eiginlega ekki ennþá. Ég er enn í sjokki. Ég trúði á liðsfélaga mína og þeir trúðu á mig. Ég reyndi bara að ná eins góðu skoti og ég gat og það fór í körfuna. Ég er svo ánægð fyrir hönd liðsins míns,“ sagði Kate Cordes eftir leikinn.

„Þetta átti ekki alveg að vera svona. Ég sá bara klukkuna og vissi að ég þurfti að losa mig við boltann. Ég er svo ánægð að við höfum komist í úrslitaleikinn og eigum möguleika á því að vinna titil,“ sagði Kate.

Hér fyrir ofan má sjá hefðbundna myndatöku af sigurkörfunni en hér fyrir neðan má sjá aftur á móti sjónarhorn sem gerir alls ekkert minna fyrir hetjudáðir Kate. Það er hægt að horfa á þetta endalaust enda fullur skamtur af gæsahúð og geðshræringu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×