Skoðun

Hildur sér heildar­myndina

Guðmundur Kristján Jónsson skrifar

Undir forystu Hildar Björnsdóttur hefur Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík einstakt tækifæri til að ganga í endurnýjun lífdaga og leiða nauðsynleg kynslóðaskipti við stjórn borgarinnar. Hildur hefur sýnt það í störfum sínum sem borgarfulltrúi að hún er ekki föst í hjólförum fortíðarinnar og er fyrir vikið laus við kreddur stjórnamálamanna sem ekki sjá heildarmyndina. Með reynslu úr alþjóðlegu starfsumhverfi eftir búsetu erlendis hefur hún skilning á flóknu eðli borgarsamfélaga og að leiðin áfram felst í málamiðlunum en ekki innihaldslausum upphrópunum.

Borgir eru síbreytilegar og þurfa að þjóna hagsmunum fjölbreyttra samfélagshópa. Af þeim sökum eru engar töfralausnir til við skipulag borga. Einstrengingslegar nálganir í skipulags- og byggingarmálum skila engu nema ósætti sem skipar fólki í óþarfa fylkingar og skotgrafir. Hildur hefur á liðnu kjörtímabili hafið sig á hispurslausan hátt yfir dægurþras stjórnmálanna og haft augun á stóru myndinni. Hún skilur ólíkar þarfir borgarbúa á mismunandi æviskeiðum sem þurfa samblöndu af fjölbreyttum lausnum og leiðum áfram, ekki yfirlætisleg boð, bönn og innantóm loforð.

Hildur hefur komið inn sem ferskur andvari inn í borgarmálin. Fyrir þau okkar sem erum hlynnt þeirri rökréttu hugmyndafræði og faglegu stefnu sem innleidd hefur verið við skipulag Reykjavíkur, en trúum því jafnframt að minni og einfaldari yfirbygging við stjórn borgarinnar skili sér í skilvirkari rekstri og stjórnsýslu er Hildur ljósið í myrkrinu. Loksins hefur stigið fram borgarstjóraefni sem bæði frjálslynd og framfarasinnuð og laus við þá tilhneigingu að reyna í sífellu að hafa vit fyrir fullorðnu fólki.

Það er ánægjulegt og auðveld ákvörðun að kjósa Hildi Björnsdóttur til forystu í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Í harðri alþjóðlegri samkeppni borga um fólk og fyrirtæki þarf höfuðborgin leiðtoga sem sameinar en ekki sundrar. Hildur Björnsdóttir er sá leiðtogi.

Höfundur er borgarskipulagsfræðingur.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×