Innherji

VÍS vill breikka tekjustoðir félagsins og „horfir til tækifæra á markaði“

Hörður Ægisson skrifar
Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS.
Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS.

VÍS hefur að „undanförnu haft til skoðunar möguleika til útvíkkunar á ýmiskonar fjármálatengdri starfsemi sem fellur vel“ að tryggingafélaginu.

Þetta kom fram í greinargerð stjórnar VÍS með þeim tillögum sem lágu fyrir aðalfund félagsins, sem fór fram í gær, en þar var meðal annars bent á að aukið regluverk og mikil framþróun í fjártækni hefði leitt fram sameiningar fjármálafyrirtækja víða um heim síðustu ár þar sem leitað væri leiða til að lækka kostnað og ná til viðskiptavina með nýjum tekjustraumum

„Þannig hefur mátt greina skýra þróun hjá innlendum og erlendum aðilum sem félagið horfir til, meðal annars í þá átt að félög nýti styrkleika sína og innviði til frekar útvíkkunar á starfsemi sinni þar sem fjártæknilausnir nýtast til að bjóða viðskiptavinum upp á víðtækara vöruframboð og til að stækka viðskiptvinagrunn sinn,“ segir í greinargerðinni.

Vegna þessarar þróunar og þeirra breytinga sem hafa orðið í umhverfi VÍS hefur stjórn félagsins nú sett sér stefnu um fjármagnsskipan til hluthafa sem markar meðal annars þá stefnu að arðgreiðslur verði að lágmarki 40 prósent af hagnaði síðasta árs eftir skatta til hluthafa. Á aðalfundi félagsins var samþykkt arðgreiðsla upp á 3,5 milljarða króna til hluthafa.

Félagið hefur að undanförnu haft til skoðunar möguleika til útvíkkunar á ýmiskonar fjármálatengdri starfsemi sem fellur vel að félaginu.

Þá greinir stjórnin frá því að hún sé samhliða þessari nýju stefnu að „horfa til tækifæra á markaði til að renna fleiri stoðum undir tekjumyndun félagsins með það að leiðarljósi að hámarka arðsemi eigin fjár.“

VÍS var um tíma stærsti hluthafi Kviku með liðlega fjórðungshlut, eftir að fjárfest í bankanum á árinu 2017, og uppi voru þá hugmyndir á meðal sumra ráðandi hluthafa og stjórnarmanna um að sameina félögin tvö. Af því varð hins vegar ekki og ári síðar var ákveðið að lækka hlutafé félagsins með greiðslu til hluthafa í formi bréfa í Kviku sem jafngilti samtals um 12 prósenta hlut í bankanum. Í kjölfarið hélt VÍS áfram að minnka við hlut sinn í Kviku, sem sameinaðist tryggingafélaginu TM í byrjun síðasta árs, og fer í dag með undir eins prósenta hlut.

VÍS var á meðal þeirra fjárfesta sem komu að stofnun eignastýringarfyrirtækisins VEX á árinu 2020, ásamt meðal annars Bjarna Ármannssyni, forstjóra Iceland Seafood og einum stærsta hluthafa VÍS, sem er rekstraraðili sérhæfðra sjóða. Hefur framtakssjóður í stýringu VEX fjárfest í hugbúnaðarfélögunum Annata, Opnum Kerfum og AGR Dynamics á undanförnum mánuðum.

Samkvæmt nýrri stefnu stjórnar VÍS um fjármagnsskipan og greiðslur til hluthafa kemur meðal annars fram að gjaldþolshlutfall félagsins haldist innan skilgreinds áhættuvilja þess sem er nú á bilinu 1,35 til 1,7. Eftir arðgreiðsluna sem var samþykkt á hluthafafundinum í gær nemur gjaldþolshlutfallið í dag 1,48 en bókfært eigið fé VÍS var 20,5 milljarðar króna í árslok 2021.

Tryggingafélagið skilaði methagnaði á síðasta ári og yfir 40 prósenta arðsemi á eigið fé. Hagnaður félagsins nam tæplega 7,7 milljörðum króna og meira en fjórfaldaðist frá fyrra ári. Þar munaði mestu um góða afkomu af fjárfestingarrekstri VÍS en tekjur af þeirri starfsemi voru 8,3 milljarðar, sem jafngilti um 18,7 prósenta nafnávöxtun yfir árið, og jukust um 3 milljarða.

Frá áramótum hefur hlutabréfaverð VÍS lækkað um 8,8 prósent – að teknu tilliti til arðgreiðslunnar – sem er svipuð gengisþróun og hjá hinu tryggingafélaginu sem er skráð á markað, Sjóvá, en sé litið til síðustu tólf mánaða hefur gengi bréfa VÍS hækkað um rúmlega 19 prósent.

Stærstu hluthafar VÍS í lok síðasta mánaðar voru Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Frjálsi.


Tengdar fréttir

Sjóðir Stefnis stækka stöðu sína í VÍS, en Akta selur

Tveir hlutabréfasjóðir í rekstri Stefnis hafa að undanförnu aukið við stöðu sína í VÍS og fara nú með samtals nálægt sex prósenta eignarhlut sem gerir sjóðastýringarfyrirtækið að fimmta stærsta hluthafanum. Markaðsvirði þess hlutar er í dag meira en tveir milljarðar króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×