Dregið var í átta liða og undanúrslit Evrópudeildarinnar í höfuðstöðvum UEFA í Nyon í Sviss í dag.
Barcelona, sem er í fyrsta sinn í Evrópudeildinni frá tímabilinu 2003-04, mætir Frankfurt. Sigurvegarinn úr þeirri viðureign mætir annað hvort West Ham eða Lyon í undanúrslitunum. West Ham tryggði sér sæti í átta liða úrslitunum með 2-0 heimasigri á Sevilla, sigursælasta liði í sögu Evrópudeildarinnar, í gær.
RB Leipzig mætir Atalanta í átta liða úrslitunum og Braga Skotlandsmeisturum Rangers. Sigurvegararnir úr þessum viðureignum mætast svo í undanúrslitunum.
Leikirnir í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar fara fram 7. og 14. apríl. Undanúrslitaleikirnir verða 28. apríl og 5. maí. Úrslitaleikurinn fer svo fram á Ramón Sánchez Pizjuán leikvanginum í Sevilla 18. maí.