Klinkið

Hispurslaus kveðja Baldvins

Ritstjórn Innherja skrifar
Ávörp í ársskýrslum skráðra félaga eru oft fremur litlaus texti skreyttur með hugtökum úr smiðju PR-fólks
Ávörp í ársskýrslum skráðra félaga eru oft fremur litlaus texti skreyttur með hugtökum úr smiðju PR-fólks

Nýjan tón mátti merkja í hispurslausu ávarpi Baldvins Þorsteinssonar, fráfarandi stjórnarformanns Eimskips, í ársskýrslu Eimskips sem kynnt var fyrir aðalfund félagsins í gær.

Baldvin, sem er 38 ára, varpar þar nýju ljósi á viðræður Samherja við bandaríska fjárfestingarfélagið Yucaipa um kaup á fjórðungshlut í Eimskip á árinu 2018 en þær gengu ekki snuðrulaust fyrir sig. 

Stjórnarformaðurinn fráfarandi veitir jafnframt innsýn inn í kostnaðargreiningar og viðhorf Samherjamanna til rekstrar sem vekja eflaust forvitni margra, og greinir frá beinskeyttum samskiptum við frænda sinn Vilhelm Þorsteinsson, forstjóra Eimskips en þeir Baldvin eru þremenningar. Ef marka má ávarpið voru samtöl þeirra um breytingar á rekstri Eimskips, og þá stefnu sem þurfti að marka, ekki lausar við tilfinningaþrunginn ágreining.

Ljóst er að þær breytingar sem frændurnir innleiddu hjá Eimskip hafa borgað sig. Rekstrarhagnaður hefur aukist og hlutabréfaverð fyrirtækisins nær þrefaldast. Í því sambandi má benda á að Samherji keypti bréf sín í Eimskip á genginu 220 en dagslokagengi gærdagsins var 550.

Ávörp í ársskýrslum skráðra félaga eru oft fremur litlaus texti skreyttur með hugtökum úr smiðju PR-fólks í þeim tilgangi að stuða ekki nokkurn mann. Ávarp Baldvins var því allt annað en hefðbundið.

Baldvin, sem er með próf í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og stýrir evrópuútgerð Samherja, ákvað síðan að stimpla sig út hjá Eimskip með eftirminnilegum hætti á aðalfundi félagsins í gær. Þá tilkynnti hann um sölu á bréfum sínum í fyrirtækinu fyrir rúmlega 5 milljónir króna og upplýsti að söluandvirðið myndi renna óskert til styrktarverkefnis handboltamannsins Igor Kopyshynskyi í Haukum sem nú safnar fjármunum fyrir stríðshrjáð börn í heimalandi sínu, Úkraínu. 

Þykir þetta vera nokkuð snyrtileg afgreiðsla hjá hornamanninum fyrrverandi sem lék sjálfur á sínum tíma með KA, Val og FH við góðan orðstír.

Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×