Þess ber að geta að sá síðastnefndi, Baldvin Örn, er sonur Ingu Sælands, þingkonu og formanns Flokks fólksins. Á veraldarvefnum finnast engar upplýsingar um menntun eða starfsreynslu hans, að undanskilinni einni frétt frá árinu 2018 þar sem hann er titlaður verkefnastjóri Flokks fólksins.
Ekki verður betur séð enn að frændhygli hafi ráðið miklu um þessa skipun enda er sægur af þrautreyndu fólki í atvinnulífinu sem unnt hefði verið að leita til. Þetta er þörf áminning um að eigendastefnu ríkisins sé ábótavant. Ótrúlegt en satt vantar enn lýsingu á faglegu ferli við tilnefningu einstaklinga í stjórn ríkisfyrirtækja á borð við Íslandspóst sem veltir 7,5 milljörðum króna á ári.
Tilnefningar og skipanir í stjórnir ríkisfyrirtækja eru án tillits til samsetningar stjórnar, þ.e.a.s. þekkingar, reynslu eða hæfni stjórnarmanna. Það verður seint sagt um eigendastefnu íslenska ríkisins að hún endurspegli góða stjórnarhætti þegar hún gengur í berhöggi við alþjóðlega staðla, til dæmis leiðbeiningar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).
En þegar kemur fjármálafyrirtækjum í ríkiseigu er eigendastefnan hins vegar mun faglegri og skyldi engan undra. Skýringin er auðvitað sú að ríkið á í samskiptum við erlenda fjárfesta, til dæmis í tengslum við hlutafjárútboð Arion banka og Íslandsbanka, sem hafa enga þolinmæði fyrir þeim stjórnarháttum sem viðgangast í öðrum íslenskum ríkisfyrirtækjum.
Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.