Eftir að reglugerðin fellur úr gildi verður einkennasýnataka hjá heilsugæslu og heilbrigðisstofnunum áfram endurgjaldslaus, bæði hraðpróf og PCR. Sem fyrr þurfa einkennalausir þó að greiða sjö þúsund krónur fyrir PCR-próf til að fá vottorð vegna ferðalaga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.
Gert er ráð fyrir að einkaaðilar haldi áfram að bjóða upp á sýnatöku en að notendur verði rukkaðir fyrir þá þjónustu líkt og fyrir 16. september 2021 þegar reglugerðin tók fyrst gildi.
Ætla að auka áhersluna aftur á PCR-próf
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir í samtali við fréttastofu að til skoðunar sé að auka áhersluna á PCR-próf á Suðurlandsbraut og hraðprófin verði þá frekar á vegum einkaaðila.
„Núna erum við að gera hvoru tveggja og sóttvarnalæknir mælir til þess að við tökum fleiri PCR.“
Í dag fær fólk sem pantar sýnatöku á höfuðborgarsvæðinu í Heilsuveru sjálfkrafa strikamerki í hraðpróf á Suðurlandsbraut en því verður hugsanlega breytt í PCR eftir næstu helgi.
„Greiningagetan er orðin það góð núna hjá Landspítalanum og þeir treysta sér alveg í mun fleiri sýni. Þetta eru betri próf og það er til nóg af hvarfefnum hjá spítalanum svo það fellur allt með því að nota PCR-prófin meira núna,“ segir Ragnheiður.
Fréttin hefur verið uppfærð.