„Í stöðunni 22-22 var dómgæslan bara grín. Eins og allur seinni hálfleikur var, við fengum einnig ódýrar brottvísanir á okkur. Dómgæslan var brandari í seinni hálfleik,“ sagði Einar Jónsson og hélt áfram aðspurður hvort hann hafi fengið skýringar frá dómurunum eftir leik.
„Það er ekki hægt að fá neinar skýringar. Ef boltinn fer í fótinn á einhverjum þá er það fótur, ef það er verið að rífa í einhvern þá er það aukakast og brottvísun. Það var ekkert samræmi í dómgæslunni en samt sem áður töpuðum við þessum leik enginn annar.“
Fram spilaði frábærlega í fyrri hálfleik og var liðið með sex marka forskot í hálfleik en Einar var afar ósáttur með síðari hálfleik.
„Við vorum eins og hálfvitar í seinni hálfleik, allar árásir voru lélegar, við skutum illa á markið og var þetta afar hægur leikur. Eins frábær og fyrri hálfleikur var þá var síðari hálfleikur hreinasta hörmung og getum við sjálfum okkur um kennt þrátt fyrir að dómgæslan hafi verið djók á tímabili,“ sagði Einar Jónsson ósáttur með seinni hálfleik Fram.