Meira en helmingur íslenskra heimila er með Netflix, þannig að meira en helmingur íslenskra heimilda mun geta horft á spennumyndina Heart of Stone þegar hún loks kemur út. En það gæti verið smá í það - tökurnar eru rétt að hefjast og það á Íslandi.
Sýnt er frá helstu tökustöðum og fyrirhuguðum götulokunum í myndskeiðinu hér að ofan, en kvöldfréttir Stöðvar 2 fjölluðu um málið.
Gott fyrir ferðaþjónustuna
Einar Hansen Tómasson, fagstjóri hjá Íslandsstofu, átti í samskiptum við framleiðendur myndarinnar í tengslum við komu þeirra til landsins. Þetta er fimmta stóra erlenda kvikmyndaverkefni ársins hér á landi.

„Þetta er klárlega gott PR svo að maður sletti nú, svona kynningarlega fyrir bæði borgina og fyrir Ísland. Þessi verkefni hafa sýnt það að þau draga til landsins ferðamenn,“ segir Einar í samtali við fréttastofu. Það náttúrulega skiptir máli að fá líka tökur í borginni og bæjum landsins, ekki bara náttúran. Það hefur verið að aukast og þetta er ekki fyrsta myndin sem er tekin upp í borginni,“ segir Einar.
Myndin skartar stórstjörnum á borð við hina ísraelsku Gal Gadot og Jamie Dornan og í Morgunblaðinu í dag segir að um 600 manns verði í tökuliðinu og aukaleikarar hátt í fjögur hundruð.