Fótbolti

Neymar og Messi tala ekki við Hakimi sem er að verða brjálaður hjá PSG

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lionel Messi og hinir Suður-Ameríkumennirnir hjá Paris Saint Germain tala ekki lengur við Achraf Hakimi.
Lionel Messi og hinir Suður-Ameríkumennirnir hjá Paris Saint Germain tala ekki lengur við Achraf Hakimi. getty/Tnani Badreddine

Achraf Hakimi vill fara frá Paris Saint-Germain, aðeins nokkrum mánuðum eftir að félagið keypti hann frá Inter.

Hakimi var frábær hjá Inter á síðasta tímabili og átti stóran þátt í að liðið varð Ítalíumeistari. Hann hefur ekki náð sama flugi með PSG í vetur og er vansæll innan vallar sem utan.

Blaðamaðurinn Daniel Riolo greindi frá því í þættinum Foot Show á RMC að suður-amerískir leikmenn PSG, eins og Lionel Messi og Neymar, töluðu ekki við Hakimi.

„Hann er að verða brjálaður. Suður-Ameríkumennirnir tala ekki lengur við hann. Hann vill fara frá PSG. Hann er búinn að fá nóg,“ sagði Riolo.

„Hæfileikar hans eru ekki nýttir svo kannski þarftu að láta hann fara. Ég gagnrýndi hann fyrir misjafna spilamennsku en það verður að segjast að hann á erfitt með að láta ljós sitt skína í þessu liði. Hann er eðlilega reiður og mælirinn er fullur.“

Mars hefur verið hræðilegur hjá PSG. Liðið féll úr leik í Meistaradeild Evrópu eftir að hafa kastað tveggja marka forskoti frá sér gegn Real Madrid. Og um helgina steinlá Parísarliðið fyrir Monaco, 3-0.

Liðsandinn er í molum en samkvæmt RMC skiptist leikmannahópurinn í tvær klíkur, leikmenn sem eru frönskumælandi og Suður-Ameríkumenn.

PSG á franska meistaratitilinn vísan en liðið er með tólf stiga forskot á toppi frönsku úrvalsdeildarinnar. PSG er hins vegar dottið út úr frönsku bikarkeppninni og Meistaradeildinni eins og áður sagði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×