Rífa upp gólf, mála stóla og laga rafleiðslur. Þetta er á meðal þess sem þátttakendur nýs atvinnuleysisverkefnis fá að gera í Hreðavatnsskála í Borgarfirði um þessar mundir.
Verkefnið heitir Tækifærið en að baki því stendur gamall pólitíkus sem nýtir nú menntun sína í félagsráðgjöf til að hjálpa ungu fólki sem hefur verið atvinnulaust í langan tíma.
„Þetta er svona tilraunahópur. Við erum bara með sex þátttakendur, svona í byrjun. Það duttu nú nokkrir úr skaftinu svona í upphafi. Það er svoldið erfitt að fá þennan hóp til virkni sem er búinn að vera lengi óvirkur,“ segir Björk Vilhelmsdóttir félagsráðgjafi.
Það er nefnilega ekki svo auðvelt að fá vinnu á Íslandi. Allavega ekki ef maður er erlendur ríkisborgari.

Atvinnuleysi á landinu stendur í 5,2 prósentum í dag en af þeim tíu þúsund manna hópi eru 43 prósent erlendir ríkisborgarar - rúmlega fjögur þúsund manns.
Ef maður hangir heima fær maður ekki vinnu
Alfredo er einn þeirra sex sem eru í tilraunahópnum.
„Ég kom til Íslands til að þroskast því að í mínu landi er lífsbaráttan erfið. Ég er ómenntaður og vildi fara til annars lands bara til að öðlast gott líf og kaupa marga hluti,“ segir Alfredo Correia, innflytjandi frá Portúgal.

Hann segir ekki auðvelt að fá vinnu á Íslandi sem útlendingur en þó snúist þetta oft um hugarfarið.
„Stundum er þetta erfitt... en ef maður hangir heima og gerir ekki neitt fær maður aldrei vinnu. Þess vegna erum við hér, til að sjá af hverju við finnum enga vinnu,“ segir Alfredo.
Viss um að tilboðin komi
Björk er bjartsýn á að hópurinn fái vinnu að verkefninu loknu.
„Svo bara í maí þá er ég tilbúin að taka við tilboðum frá atvinnulífinu og ég veit að það verður sko nóg af tilboðum,“ segir Björk.