Lífið

Bradley Cooper og Denzel Washington ræddu við Will Smith eftir atvikið

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Will Smith var í miklu uppnámi á Óskarnum í nótt.
Will Smith var í miklu uppnámi á Óskarnum í nótt. Samsett/Getty

Leikararnir Bradley Cooper, Denzel Washington og Tyler Perry ræddu allir við Will Smith eftir að hann sló Chris Rock á Óskarnum í nótt.

Áhorfendur í salnum stóðu margir upp til þess að reyna að sjá hvað væri í gangi. Samtölin virðast hafa átt sér stað þegar auglýsingahlé var skömmu eftir atvikið. Meredith O. Sullivan talsmaður leikarans ræddi einnig við hann strax eftir atvikið.

Óskarsverðlaunin voru sýnd á Stöð 2 í nótt. Augnablikið má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Will Smith sló Chris Rock á Óskarsverðlaununum

Bradley Cooper setti hendur á axlir Will Smith og Denzel Washington tók utan um hann. Skömmu síðar vann Will Smith Óskarsverðlaun fyrir besta leik í aðalhlutverki, fyrir hlutverk sitt í King Richard.

Í ræðu sinni bað hann akademíuna og aðra sem tilnefndir voru afsökunar. Þá hafði hann eftir Washington úr samtali þeirra: 

„Þegar þú nærð toppnum þá kemur djöfullinn á eftir þér.“
Denzel Washington ræðir við Will Smith eftir atvikið.Getty/Myung Chun

Will Smith sló Chris Rock eftir að hann sá síðarnefndi sagði brandara um konuna hans Jada Pinkett Smith. Rock virtist vera í áfalli í kjölfarið. 

„Þetta er stærsta mómentið í sögu sjónvarpsins,“ sagði Rock áður en hann kynnti tilnefningar til bestu heimildarmyndar.

Demi Moore sem hermaðurinn G.I. Jane í samnefndri bíómynd.

Heyra mátti saumnál detta í salnum þar sem Rock reyndi að halda andliti eftir uppákomuna óvæntu.

Brandari Rock snerist um að Jada Pinkett minnti á karakterinn G.I. Jane sem Demi Moore lék í samnefndri bíómynd. 

Jada Pinkett er krúnurökuð en hún hefur talað opinberlega um að hún glími við hárlos.

Smith var nóg boðið, labbaði upp á svið og sló Rock sem virtist bregða töluvert. Smith öskraði einnig á Rock:

„Láttu nafn konunnar minnar ekki koma út úr fokking munninum á þér“.

Smith var svo verðlaunaður sem besti leikari í aðalhlutverki fyrir túlkun sína á Richard Williams, föður tennissystranna Venusar og Serenu, í myndinni King Richard. Ræðuna má heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan. 

Klippa: Ræða Will Smith á Óskarsverðlaununum

Í þakkarræðu sinni minntist Smith á að Richard Williams hefði alltaf gætt hagsmuna fjölskyldu sinnar og varið með kjafti og klóm. Með tárin í augunum sagði Smith að ástin fengi mann stundum til að gera klikkaða hluti.

Samheldin hjón. Will Smith og Jada Pinkett Smith glæsileg á rauða dreglinum í nótt.Getty

„Ég vona að akademían bjóði mér hingað aftur,“ sagði Smith og baðst afsökunar á hegðun sinni.

Akademían sendi frá sér tilkynningu í kjölfarið og fordæmdi allt ofbeldi.

Hér fyrir neðan má síðan sjá viðtal sem var tekið við hjónin í byrjun þessa örlagaríka kvölds á rauða dreglinum.

Klippa: Will Smith og Jada Pinkett-Smith á rauða dreglinum

Lífið á Vísi var með beina textalýsingu frá Óskarsverðlaununum í nótt og má lesa hana HÉR. Lista yfir alla vinningshafa má svo sjá í fréttinni hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Will Smith sló Chris Rock í beinni útsendingu

Will Smith rauk upp á svið og sló Chris Rock í beinni útsendingu á Óskarnum eftir að hann kom með brandara um konuna hans Jada Pinkett Smith. Rock virtist vera í áfalli í kjölfarið.

Sigurvegarar Óskarsins 2022: „Þetta er okkar stund“

Óskarsverðlaunahátíðin 2022 fer líklega í sögubækurnar sem ein viðburðarríkasta og jafnvel undarlegasta hátíðin hingað til. Dune vann flest verðlaun kvöldsins, alls sex, en þó ekki sem besta myndin. Hátíðin var í beinni útsendingu á Stöð 2 auk þess sem fylgst var grannt með gangi mála í vaktinni, eins og sjá má neðst í fréttinni.

Óskarsvaktin 2022

Óskarinn fer fram í Dolby leikhúsinu í kvöld þar sem allar stærstu stjörnurnar mæta og vonast eftir gullstyttunni. Dóra Júlía og Elísabet Hanna ætla að halda uppi vaktinni í nótt og fara með lesendum í gegnum rauða dregilinn og hátíðina. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.