Innlent

Skip­verjar á Berg­eyju lönduðu fimm­tíu kílóa þorski

Atli Ísleifsson skrifar
Valur Valtýsson, háseti á Bergey, með stóra þorskinn sem fékkst í Háfadýpinu.
Valur Valtýsson, háseti á Bergey, með stóra þorskinn sem fékkst í Háfadýpinu. SVN/Hákon U. Seljan Jóhannsson

Skipverjar á togaranum Bergey VE veiddu fimmtíu kílóa þorsk á Háfadýpinu nærri Vestmannaeyjum um helgina. Ljóst er að um er að ræða einn stærsta þorsk sem veiðst hefur við Íslandsstendur.

Síldarvinnslan segir frá þessu á vef sínum og hefur eftir Jóni Valgeirssyni skipstjóra að þeir hafi fengið óvenju stóran þorsk undir lok síðasta túrs.

„Þetta var þorskur sem var um fimmtíu kíló að þyngd og um 1,80 metrar að lengd. Hann var gamall og virðulegur og hefur árum saman sloppið við net og troll. Við vorum mest á Selvogsbankanum í túrnum en skruppum í Háfadýpið rétt undir lokin,“ segir Jón.

Ljóst má vera að um er að ræða einn stærsti þorskur sem veiðst hefur við Íslandsstendur, en í frétt mbl frá síðasta sumri var fjallað um að áhörfnin á Sólrúnu á Árskógssandi hafi landað þorski sem vó 51 kíló.

Jón segir að það hafi verið alveg fínasta veiði og túrarnir ekki verið langir þegar fiskast svona. „Núna erum við að toga í Háfadýpinu í leiðindaveðri. Það er austan 18- 20 metrar og verður þannig í dag. Síðan held ég að sé betra í kortunum. Aflinn hér er blandaður en þetta er allt mjög góður fiskur,“ segir Jón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×