Í fréttum Stöðvar 2 var rifjað upp að Áburðarverksmiðja ríkisins í Gufunesi var fyrsta orkufreka stóriðjan á Íslandi, reist á árunum 1952 til 1954. Samtímis var Írafossvirkjun byggð við Sogið sem þá var stærsta virkjun landsins.

Áburðarverksmiðjan var síðar seld einkaaðilum en áburðarframleiðslu lauk þar árið 2002 þegar Reykjavíkurborg keypti verksmiðjusvæðið.
Síðan hafa Íslendingar keypt allan sinn áburð frá útlöndum, milli 45 og 50 þúsund tonn á ári, og má áætla að áburðarkaupin kosti þjóðina milli fjóra og fimm milljarða króna í gjaldeyri á þessu ári.
En núna hafa þrír aðilar sameinast um að skoða hagkvæmni þess að reisa nýja áburðarverksmiðju á Íslandi. Fulltrúar HS Orku, Kaupfélags Skagfirðinga og Fóðurblöndunnar, dótturfélags KS, undirrituðu viljayfirlýsingu þess efnis í dag.

Að sögn talsmanna þeirra liggur ekkert fyrir um hvar verksmiðjan yrði staðsett á landinu. Æskilega staðsetningu segja þeir þó nálægt orkuveri og höfn sem og stærsta markaðssvæðinu, Suðurlandi.
Samstarfið felur í sér að kanna framleiðslu áburðar með grænni íslenskri orku fyrir innanlandsmarkað fyrir bændur og aðra sem þarfnast hans til ræktunar.
Jafnframt á að kanna hvort raunhæft sé að flytja út áburð á erlenda markaði og er gert ráð fyrir að hagkvæmniathuguninni verði lokið í september á þessu ári.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: