Skoðun

Fólk með vímu­efna­vanda statt í Squ­id Game

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Um helgina birtist átakanlegt viðtal í fjölmiðlum við ungan mann og móður hans. Maðurinn hefur glímt við vímuefnavanda hálfa ævina og er einn þeirra fjölmörgu sem bíða eftir því að komast í meðferð, bíða eftir því að fá lífsnauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Á meðan hann bíður er það fjölskyldan sem styður hann og annast, sérstaklega móðir hans. Við aðstandendur vitum vel hvað þessi bið þýðir. Við þekkjum það að þora ekki að slökkva á símanum á nóttunni, að hrökkva í kút þegar dyrabjöllunni er hringt af ótta við slæmar fréttir. Hundruð sjúklinga sem bíða eftir meðferð þýðir þúsundir aðstandenda sem vaka og sofa yfir örlögum þeirra.

Fíknisjúkdómar eru lífshættulegir sjúkdómar og bið fólks í vímuefnavanda eftir meðferð getur verið dauðadómur. Ungi maðurinn lýsir því að hann hafi misst fjóra vini úr ofneyslu frá því í desember. Líf fólks í fíknivanda sem bíður eftir meðferðarúrræði er eins og raunveruleg útgáfa af Squid Game; líf þátttakenda eru undir og enginn veit hver verður næstur.

Langir biðlistar eftir meðferð eru mótsögn við þá miklu viðhorfsbreytingu sem hefur orðið í samfélaginu í þá átt að fíknisjúkdómar eigi að vera meðhöndlaðir innan heilbrigðiskerfisins. Af þeim sökum hef ég, ásamt hópi þingmanna, lagt fram tillögu til þingsályktunar Alþingis um viðhlítandi þjónustu vegna vímuefnafíknar. Með tillögunni er heilbrigðisráðherra falið að skipa starfshóp sérfræðinga til að greina þá hópa sem fá ekki viðhlítandi þjónustu vegna fíknar sinnar, og að hópnum verði falið að koma með tillögur að úrbótum. Það er nauðsynlegt að hópar vímuefnasjúklinga verði skilgreindir svo hægt sé að gera tillögur að úrræðum sem henta hverjum hópi.

Það ætti að vera algjört forgangsmál hjá stjórnvöldum að efla og auka skilvirkar forvarnir, fræðslu og meðferðarúrræði, enda eru forvarnir og meðhöndlun fíknisjúkdóma besta leiðin til að draga úr vímuefnavandanum. Með því látum við ekki sitja við orðin tóm; með því tökum við á vímuefnavandanum innan heilbrigðiskerfisins.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×