Handbolti

Ýmir og Teitur skiptu stigunum á milli sín

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ýmir Örn Gíslason skoraði tvö mörk fyrir Rhein-Neckar Löwen í kvöld.
Ýmir Örn Gíslason skoraði tvö mörk fyrir Rhein-Neckar Löwen í kvöld. Moritz Eden/City-Press GmbH via Getty Images

Ýmir Örn Gíslason og Teitur Örn Einarsson tóku eitt stig hvor með sér heim er Rhein-Neckar Löwen og Flensburg skildu jöfn í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld, 29-29.

Leikurinn var jafn og spennandi allt frá fyrstu mínútu og liðin skiptust á að skora. Munurinn varð aldrei meiri en tvö mörk í fyrri hálfleik og þegar gengið var til búningsherbergja var staðan 13-12, Ljónunum í vil.

Liðin buðu upp á sömu spennu í síðari hálfleik. Gestirnir í Flensburg náðu ágætis áhlaupi þegar um tíu mínútur voru til leiksloka og komust þremur mörkum yfir í stöðunni 20-23. Heimamenn í Rhein-Neckar Löwen skoruðu hins vegar næstu þrjú mörk og allt orðið jafnt á ný. Liðin héldust í hendur það sem eftir lifði leiks og niðurstaðan varð jafntefli, 29-29.

Ýmir Örn Gíslason skoraði tvö mörk fyrir Ljónin, en liðið situr í tíunda sæti deildarinnar með 22 stig eftir 25 leiki. Teitur Örn Einarsson komst ekki á blað fyrir Flensburg sem situr í fjórða sæti með 38 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×