Fótbolti

Þorleifur spilaði í sigri Houston Dynamo

Atli Arason skrifar
Þorleifur Úlfarsson í leik með Duke.
Þorleifur Úlfarsson í leik með Duke. Duke

Þorleifur Úlfarsson spilaði 23 mínútur í 1-3 sigri Houston Dynamo á útivelli gegn Inter Miami í MLS deildinni í nótt. Arnór Ingvi Traustason kom ekki við sögu í tapi 0-1 New England Revolution gegn New York Red Bulls.

Þorleifur Úlfarsson kom inn af varamannabekk Houston Dynamo á 76. mínútu í sigri liðsins á Inter Miami. Darwin Quintero kom Dynamo yfir í upphafi síðari hálfleiks áður en Fafá Picault tvöfaldaði forystuna úr vítaspyrnu á 57. mínútu. Inter Miami fengu einnig vítaspyrnu níu mínútum síðar sem Gonzalo Higuaín skoraði úr. Fafá Picault gulltryggði svo sigur Dynamo með marki á þriðju mínútu uppbótatíma. Með sigrinum lyftir Dynamo sér upp í sjötta sæti vesturdeildar á meðan Inter Miami er enn þá sigurlaust á botni austurdeildar MLS.

Arnór Ingvi Traustason sat allan tíman á varamannabekk New England Revolution í grátlegu 0-1 tapi gegn New York Red Bulls. Sigurmarkið kom á síðustu andartökum leiksins og var það sjálfsmark Matt Polster. Red Bulls spilaði manni færri frá 73. mínútu þegar Frankie Amaya fékk rautt spjald. Adam Buksa, framherji New England tókst svo einnig að láta reka sig út af leikvelli á fjórðu mínútu uppbótatíma eftir að hafa fengið tvö gul spjöld á 93. og 94. mínútu. New England er í 12. sæti austurdeildar með fjögur stig eftir fimm leiki en Red Bulls eru í öðru sæti með 10 stig eftir jafn marga leiki.

MLS



Fleiri fréttir

Sjá meira


×