Vucic hefur setið á forsetastóli í fimm ár og sækist nú eftir endurkjöri. Hann hefur lofað serbneskum kjósendum friði og stöðugleika í skugga stríðs Rússlands í Úkraínu. Stríðið hefur vakið óhug meðal serbnesks almennings og nú ýtt á stjórnvöld að velja milli vestursins, að ganga til liðs við Evrópusambandið, eða halda í tengslin við Rússland.
Kjörstaðir opnuðu klukkan fimm í morgun að íslenskum tíma og loka klukkan sex í kvöld. Útgönguspár benda til að Vucic, sem er mikill íhaldsmaður, muni bera sigur úr bítum í kapphlaupinu við Zdravko Ponos, fyrrverandi herforingja sem býður sig fram fyrir miðjuflokkinn Bandalag til Sigurs, sem styður inngöngu í Evrópusambandið.
Samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Faktor Plus, sem birtist í dagblaðinu Blic daily á miðvikudag, mun Framfaraflokkurinn sigra með 53,6 prósent atkvæða. Bandalag til Sigurs kemur næst á eftir með 13,7 prósent atkvvæða og stjórnarflokkur Sósíalista, sem hafa verið í ríkisstjórn með Framfaraflokknum, koma næstir með 10,2 prósent atkvæða. Þar á eftir koma Græningjar með 4,7 prósent. Aðrir flokkar ná ekki inn þingmanni en lágmarkið er 3 prósent atkvæða til að fá inn mann.
Stjórnarandstaðan tók ekki þátt í þingkosningum árið 2020 sem fóru svo að Framfaraflokkurinn og samstarfsflokkar hans fengu 188 sæti af 250 þingsætum.
Stríðið í Úkraínu hefur haft veruleg áhrif á Serbíu, sem hefur náin tengsl við Rússland. Serbía er enn að ná sér eftir Balkanstríðin og einangrunina sem fylgdi þeim á tíunda áratugi síðustu aldar. Serbar stóla mjög á jarðgasinnflutning frá Rússlandi og serbneski herinn hefur náin bönd við þann rússneska. Þá styðja yfirvöld í Rússlandi fast við bakið á yfirvöldum í Belgrad hvað varðar sjálfstæðistilburði Kósovó, ríkis eða héraðs suður af Serbíu.
Serbía hefur stutt tvær ályktanir Sameinuðu þjóðanna þar sem Rússland var fordæmt fyrir innrásina í Úkraínu en hefur neitað að taka þátt í viðskiptaþvingunum gegn Rússlandi.