Lífið

Vakna alltaf miður mín

Stefán Árni Pálsson skrifar
Tyrfingur er 35 ára leikskáld sem hefur afrekað mikið þrátt fyrir ungan aldur. 
Tyrfingur er 35 ára leikskáld sem hefur afrekað mikið þrátt fyrir ungan aldur. 

Tyrfingur Tyrfingsson leikskáld verður 35 ára árinu og hefur þrátt fyrir ungan aldur skrifað sjö leikverk og frumsýndi nú á dögunum sitt fyrsta leikverk á stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu, Sjö ævintýri um skömm.

Hann býr í Amsterdam og segist elska rólega lífið þar en er staddur á Íslandi um þessar mundir og við náðum honum í morgunkaffi nú á dögunum en hann vaknar snemma, grípur daginn og fær sér einn góðan kaffi.

„Það er svolítið að færast í aukanna að ég vakna klukkan sex á morgnanna og þá er maður líka kominn á koddann ansi snemma,“ segir Tyrfingur við Evu Laufey í Íslandi í dag á Stöð 2 í gærkvöldi.

„Ég byrja á því að fá mér kaffi og ég vakna alltaf miður mín og hugsa, nei mér lýst ekkert á þetta. Fyrsti klukkutíminn fer í það að ég tala mig inn á það að byrja á einum kaffi og svo bara tökum við stöðuna og ég þarf að semja við sjálfan mig í alveg góðan klukkutíma og svo hægt og rólega fer ég í gang,“ segir Tyrfingur sem frumsýndi verkið Sjö ævintýri um skömm á dögunum.

Farin af hjörunum

„Við ferðumst inn í höfuðið að Öglu sem er lögreglukona sem er í rauninni algjörlega farin af hjörunum. Agla á mjög skrautlega fjölskyldu sem til að mynda var á fullu að taka þátt í Lúkasarmálinu og Kanamellum og ég veit ekki hvað og hvað,“ segir Tyrfingur en þegar hann talar um Kanamellu þá er það í raun tilvísun í ömmu hans sem er fallin frá. En sú kona talaði alltaf um sjálfan sig sem Kanamellu og útskýrir Tyrfingur þá sögu vel í innslaginu.

Hann segir að verkið sé byggt á sannsögulegum sögum og viðtölum við fólk.

„Þegar kemur að leikverkum þá finnst mér þetta eini staðurinn sem ég nýtist almennilega. Ég er svona allt í lagi sonur, ágætur frændi, meðal maki og jafnvel aðeins fyrir neðan og kannski meðal þegn. Þarna næ ég að gera eitthvað vel og því verð ég að reyna halda því áfram.“

Tyrfingur segir frá næsta verki.

„Ég er að vinna að verki fyrir Þjóðleikhúsið sem er mjög spennandi ég og ætla búa til úr svona þremur mismunandi heimilum og þú gengur til að mynda bara beint inn í svefnherbergi fólks, mjög innilegt og skemmtilegt verk. Svo er ég að vinna í verki sem heitir kvöldstund með Heiðari Snyrti. Við erum miklir vinir og ég hef farið í litgreiningu hjá honum og ég er vor,“ segir Tyrfingur að lokum en hér að neðan má sjá innslagið í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×