Viðskipti innlent

Eig­andi Nýju vín­búðarinnar dæmdur fyrir skatt­svik

Eiður Þór Árnason skrifar
Sverrir Einar Eiríksson hefur vakið athygli fyrir ýmis viðskipti undanfarin ár.
Sverrir Einar Eiríksson hefur vakið athygli fyrir ýmis viðskipti undanfarin ár. Vísir

Sverrir Einar Eiríksson, eigandi Nýju vínbúðarinnar, hefur verið dæmdur í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skattsvik í tengslum við rekstur þriggja einkahlutafélaga.

Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudag en Sverrir var jafnframt dæmdur til að greiða 64,4 milljóna króna sekt í ríkissjóð. Sektina þarf hann að greiða innan fjögurra vikna eða sæta 360 daga fangelsi.

Sverrir játaði brot sín skýlaust fyrir dómi og segir í úrskurði héraðsdóms að sannað sé með játningu hans og öðrum gögnum málsins að hann sé sekur um þá háttsemi sem honum hafi verið gefið að sök. Brotin hafi verið framin af ásetningi og um sé að ræða verulegar upphæðir. Við ákvörðun refsingar var horft til þess að Sverrir játaði brotin og að hann hafi verið með hreint sakavottorð.

Stóð ekki skil á opinberum gjöldum vegna Þrastalunds í Grímsnesi

Um er að ræða félögin BHG sem stofnað var árið 2016, Sogið veitingar stofnað 2018 og Jupiter gisting stofnað sama ár. Sem framkvæmdastjóri og varastjórnarmaður BHG ehf. var Sverrir Einar dæmdur fyrir meiriháttarbrot gegn skattalögum með því að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum félagsins á lögmæltum tíma, virðisaukanum sjálfum, ekki skilað staðgreiðslu opinberra gjalda og staðgreiðsluskilagreinum vegna þeirra. Samanlögð upphæð í tilfelli BHG ehf. nemur um fjórtán milljónum króna.

Sverrir rak um tíma veitingastaðinn Þrastalund í Grímsnesi í félaginu Sogið veitingar ehf. Hann var dæmdur fyrir meiriháttar brot á skattalögum sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Sogsins veitinga ehf. með því að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda og staðgreiðsluskilagreinum félagsins. Upphæðin nam 9,3 milljónum króna.

Dómurinn nokkuð áfall

Að lokum var Sverrir dæmdur fyrir að hafa sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Jupiter gisting ehf. ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda og staðgreiðsluskilagreinum árin 2018 og 2019. Heildarupphæðin nam rúmum 8,7 milljónum króna. Félagið varð gjaldþrota árið 2019 en í frétt Fréttablaðsins kom fram að Jupiter gisting ehf. hefði um tíma tengst rekstri á Hótel Brimi í Skipholti. 

Í yfirlýsingu sem Sverrir sendir til fjölmiðla vegna dómsins segir að hann hafi játað allar sakargiftir í málinu og komi til með að standa skil á sektargreiðslunni sem nemi tvöföldum vanskilum skattgreiðslnanna.

„Mér er þessi dómur nokkuð áfall, enda ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað, líkt og fram kemur í dómnum.“

Hann hafi í nærri aldarfjórðung stundað ýmis konar viðskipti, þó mest fasteignaviðskipti hér á landi og í Bretlandi. Einnig hafi hann komið að kaupum á gulli og demöntum, stundað lánastarfsemi, veitinga- og gistihúsarekstur, rekið starfsmannaleigu og fleira.

„Flest hefur gengið vel en þó hefur ekki allur rekstur gengið upp. Þau félög sem um ræðir héldu utan um starfsemi á sviði veitingareksturs. Því miður var sá rekstur um margt erfiður. Þrátt fyrir að ég legði mig allan fram varð ég að játa mig sigraðan að lokum og því fór sem fór með þau félög,“ segir Sverrir jafnframt í yfirlýsingu sinni.

„Núna einbeiti ég mér að öðrum verkefnum og er létt að bundinn er endi á þessi erfiðu mál.“

Fréttin hefur verið uppfærð. Í upphaflegri útgáfu sagði að Sverrir hafi einnig verið dæmdur fyrir peningaþvætti en hið rétta er að ákæruvaldið féll frá þeim hluta ákærunnar.


Tengdar fréttir

Eigandi Nýju vínbúðarinnar ákærður fyrir skattsvik

Sverrir Einar Eiríksson, eigandi Nýju vínbúðarinnar sem komið hefur að alls kyns athyglisverðum rekstri undanfarin ár, hefur verið ákærður af héraðssaksóknara fyrir skattsvik og peningaþvætti í rekstri þriggja einkahlutafélaga sem öll hafa orðið gjaldþrota og verið afskráð. Málið verður þingfest í mars. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×